Vonarskarð: Framtíðarskipulag náttúruverndar og innviða
Endurskoðun stjórnunar- og verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs er varðar skipulag náttúruverndar og innviða innan landslagsheildarinnar í Vonarskarði.

Kort af svæðinu
Hér má nálgast kort af svæðinu við Tungnafellsjökul og Vonarskarð. Einnig má sjá kort í fylgigögnum 105a og 105b.
Ákvörðun stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs 18. nóvember 2024 og forsaga máls
Á 205. fundi stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs þann 18. nóvember 2024 var samþykkt með meirihluta atkvæða að hefja ferli breytinga á stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins með það fyrir augum að opnað verði fyrir vélknúna umferð um Vonarskarð til 5 ára í tilraunaskyni, í samræmi við tillögu c. í minnisblaði frá stjórnarformanni Vatnajökulsþjóðgarðs frá september 2020 fsk. 69.
Hér fyrir neðan má nálgast samantekt um gögn málsins og efnisatriði þeirra vegna ákvörðunar stjórnar um hvort hefja ætti ferli breytingar á stjórnunar- og verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs varðandi umferð í Vonarskarði. Einnig fylgir minnisblað þar sem ítarlega er farið yfir ferli málsins, frá staðfestingu þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra á 2. útgáfu stjórnunar- og verndaráætlunar árið 2013, þar sem stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs fékk samhliða staðfestingu tilmæli um frekari skoðun á málefnum útivistar og náttúrverndar í Vonarskarði. Frá þeim tíma hefur málefnið verið til umfjöllunar hjá svæðisráðum og stjórn, eins og ítarlega er rakið í minnisblaðinu.
Á árinu 2025 var unnið að breytingatillögu á stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs er varðar Vonarskarð.
Öll gögn málsins má nálgast hér neðar á síðunni.
Breytingatillaga send ráðherra til staðfestingar 19.9.2025
Vinnsla breytingatillögu 2025
Í framhaldi af ákvörðun stjórnar þann 18.nóvember 2024 hófst vinna við breytingatillögu á stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs á árinu 2025.
Breytingatillaga var unnin í samræmi við 7. mgr. 12. gr. laga nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð, með hliðsjón af leiðbeiningum um breytingar á stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs (gefnar út í maí 2020). Breytingatillagan felur í sér tímabundnar breytingar á stjórnunar- og verndaráætlun til 5 ára frá gildistöku og munu ákvæðin falla niður að gildistíma loknum ef ekki kemur til ákvörðun stjórnar um annað. Verkefnastjórn vann verkefnislýsingu og lagði fyrir svæðisstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs á 208. fundi þann 28. maí 2025. Svæðisráð vestursvæðis tók verkefnislýsingu fyrir á fundi sínum 11. júní. Svæðisstjórn tók verkefnislýsingu aftur til umfjöllunar á 209. fundi sínum 18. júní 2025. Ekki var talin þörf á opnu kynningarferli verkefnalýsingar þar sem fyrir lá gagnaöflun, eldri umsagnir og formleg ákvörðun stjórnar um viðfangsefni breytinganna. Hins vegar var lögð áhersla á hefðbundið opið kynningarferli vegna breytingatillögunnar. Frestur til að gera athugasemdir við 4 tillöguna var sex vikur auk þess sem umsagnir sem bárust eftir að kynningartíma lauk voru teknar til skoðunar og unnið úr þeim upplýsingum sem þar komu fram. Fullmótuð bráðabirgðaákvæði, athugasemdir og ábendingar úr samráðsferli og svör við athugasemdum og ábendingum voru lögð fyrir og samþykkt á fundi svæðisstjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs 17. september 2025. Í kjölfar samþykkis stjórnar var bráðabirgðaákvæðum vísað til ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála til staðfestingar.