Beint í efni

Jafnréttisstefna

Hjá Vatnajökulsþjóðgarði er jafnréttis gætt og hver starfsmaður er metinn og virtur að verðleikum.

Markmiðið með Jafnréttisstefnu Vatnajökulsþjóðgarðs er að stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla og jöfnum tækifærum einstaklinga óháð kynferði. Það á við um ráðningar, starfsþróun, launakjör, starfsaðstöðu, menntun og tækifæri til að samræma vinnu og fjölskyldulíf. Einelti eða önnur óæskileg hegðun eins og kynbundin og kynferðisleg áreitni er ekki liðin.

Jafnréttisstefnan byggir á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samkvæmt 18. gr laganna er henni ætlað að setja aðgerðabundna áætlun um hvernig starfsmönnum eru tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í 19. – 22. gr. laganna.

Jafnréttisstefna Vatnajökulsþjóðgarðs tekur til allra þeirra sem ráðnir eru til starfa hjá þjóðgarðinum, ótímabundið eða til skemmri tíma.

Jafnréttisstefnuna skal endurskoða að minnsta kosti á tveggja ára fresti en oftar ef þörf krefur.