Beint í efni

Eldgjá

Austarlega á Fjallabaksleið nyrðri fara vegfarendur um gríðarmikla gjá sem teygir sig milli Mýrdalsjökuls og Vatnajökuls. Mikilfenglegasti hluti gjárinnar liggur milli Fjallabaksleiðarinnar og Gjátindar. Þessi 8 km kafli er í daglegu tali kallaður Eldgjá og hér hafa landverðir Vatnajökulsþjóðgarðs aðsetur á daginn. Hér er gjáin um 600 m breið og 150 m djúp og um miðbik hennar steypist Nyrðri Ófæra ofan í gjána í hinum fagra Ófærufossi. Í botni Eldgjár rennur Nyrðri Ófæra til suðvesturs og leikur þar við gígaröð sem prýðir botn gjárinnar. Þrátt fyrir róandi nið árinnar er ekki erfitt fyrir vegfarandann að ímynda sér að þessi mikilfenglegi staður hafi orðið til við miklar náttúruhamfarir.

Gönguleiðir í Eldgjá

E1

Eldgjá - Ófærufoss

2,5 km
2,5 klst
Krefjandi leið

Frá bílastæðinu í Eldgjá er gengið eftir botni gjárinnar og að útsýnispalli við Ófærufoss. Á leiðinni gnæfabarmar gjárinnar yfir göngufólkinu, sem öðlast tilfinningu fyrir þeim hamförum sem þarna hafa átt sér stað. Hægt er að ganga aðra leiðina upp á eystri gjárbarminum, við það lengist leiðin örlítið og um 150 m hækkun bætist við en útsýnið er þess virði.

E2

Gjátindur

7 km
3-4 klst
Krefjandi '

Frá bílastæðinu í Eldgjá er gengið upp á eystri barm gjárinnar og honum fylgt þar til komið er að Gjátindi. Af gjábarminum er gott útsýni yfir Ófærufoss og Skaftá og þaðan er um 300 m hækkun upp á Gjátind sjálfan. Á bakaleiðinni er hægt að ganga niður lausa skriðu innst í Eldgjá og fylgja botni gjárinnar fram jáútsýnispalli við Ófærufoss og að bílastæðinu. Gönguleiðina á Gjátind má einnig stytta með því að aka upp á eystri barm Eldgjár. Þá þarf að aka yfir Nyrðri Ófæru við Ströngukvísl og fylgja slóða þaðan. Við enda slóðans er bílastæði og þaðan er um 2,5 km ganga upp á Gjátind.

E3

Strangakvísl - Eldgjá

2 km
1 klst
Krefjandi leið, rauð leið

Fyrir þau sem ekki vilja keyra yfir Ströngukvísl á Fjallabaksleið nyrðri er hægt að leggja á bílastæði sunnan megin við ána og hefja gönguna við göngubrú rétt við bílastæðið.Þessi hluti gönguleiðarinnar fylgir Nyrðri Ófæru inn í Eldgjá og er með fegurri hlutum hennar.