Umsókn um leyfi og samninga

Ýmis starfssemi innan Vatnajökulsþjóðgarðs krefst leyfis eins og rannsóknir, kvikmynda- og auglýsingagerð og notkun flygilda eða dróna. Samstarf Vatnajökulsþjóðgarðs við vísindasamfélagið er bæði lögbundið og afar verðmætt. Unnið er að fjölþættum rannsóknum í síkvikri náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs ár hvert. Þjóðgarðurinn er einnig fjölsóttur vettvangur fyrir kvikmynda- og auglýsingatökur og notkun ferðafólks á flygildum er sífellt vinsælli.

Markmið með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs samkvæmt 2. gr. laga um þjóðgarðinn er að:

 • Vernda náttúru svæðisins, svo sem landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar.
 • Gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru og sögu svæðisins.
 • Stuðla að rannsóknum á svæðinu, fræða um það og ýta undir aukinn skilning almennings á gæðum og sérstöðu svæðisins.
 • Leitast við að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins, m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar gæða svæðisins.

Framangreind markmið eru leiðarljós í öllu starfi þjóðgarðsins og stefnumótun, þ.á m. þegar gerðir eru samningar um atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum. Frumskilyrði er ávallt að starfsemin samræmist þessum markmiðum.

Verklagsreglur: Tilgangur verklagsreglnanna er að upplýsa umsækjanda um þær kröfur sem gerðar eru til umsókna og umsóknargagna og hvaða kröfur þarf að uppfylla til að leyfi fáist útgefið. Þá er tilgangur verklagsreglnanna jafnframt að kynna fyrir umsækjanda hvaða verklag er viðhaft við móttöku og meðferð umsókna innan stjórnsýslu Vatnajökulsþjóðgarðs.

Í gildi er reglugerð um gestagjöld nr. 601/2020 Reglugerð um gestagjöld innan Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir veitta þjónustu og aðgang að svæðinu

Stjórnunar- og vernaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs:

 

Flygildaleyfi (drónaleyfi)

Stuðst er við 1. mgr. 38. gr. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð (300/2020) þar sem segir: Afla skal leyfis þjóðgarðsvarðar vegna skipulagðra viðburða og verkefna sem kalla á aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja í þjóðgarðinum, svo sem til kvikmyndunar, listviðburða, samkomuhalds og rannsókna. Þá skal afla leyfis þjóðgarðsvarðar til lendingar loftfars og notkun fjarstýrðra loftfara innan Vatnajökulsþjóðgarðs.

Notkun fjarstýrðra loftfara (dróna) innan Vatnajökulsþjóðgarðs er háð leyfi þjóðgarðsyfirvalda. Við mat á umsóknum tekur þjóðgarðsvörður ákvörðun um veitingu leyfis á grundvelli eftirfarandi sjónarmiða:

 1. Verndun dýralífs innan þjóðgarðsins;
 2. öryggi gesta
 3. markmið þjóðgarðsins um gæðaupplifun gesta í þjóðgarðinum.
 4. Mengunarvarnir

Þjóðgarðsverðir geta heimilað notkun fjarstýrðra loftfara sé það tryggt að notkun þeirra fari ekki gegn þeim sjónarmiðum sem nefnd eru hér ofar.

Listi yfir svæði þar sem ekki eru gefin út leyfi til að fljúga flygildum (drónum) (nema vegna rannsókna og kvikmyndunarverkefna, sjá þar til gerð umsóknarform)

 • Skaftafell, Skaftafellsheiði, Morsárdalur, Kjós og Skaftafellsfjöll – Eini staðurinn í Skaftafelli þar sem flygildaleyfi eru veitt er fyrir framan Skaftafellsjökul.
 • Jökulsárlón frá 15. apríl til 20. júlí – vegna fuglaverndar á varptíma kríu.
 • Jökulsárgljúfur (m.a. Ásbyrgi, Vesturdalur, Hljóðaklettar, Dettifoss) – vegna fuglaverndar, öryggis og til að tryggja gæðaupplifun gesta.
 • Askja. Kyrrðarupplifun.

Vakin er athygli á því að lögregla og björgunarsveitir þurfa ekki að afla leyfis vegna sinna starfa en æskilegt er að þeir láti starfsmenn þjóðgarðsins vita um notkun fjarstýrðra loftfara á þeirra vegum, eftir atvikum eftir á.

SÆKJA UM LEYFI Í ÞJÓNUSTUGÁTT

 

Rannsóknarleyfi

Eitt af markmiðum með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er að stuðla að rannsóknum á svæðinu, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007. Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 300/2020 skal afla leyfis þjóðgarðsvarðar vegna allra verkefna sem kalla á aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja í þjóðgarðinum, þ.m.t. vegna rannsókna innan þjóðgarðsins. Sækja þarf um leyfi samkvæmt þessu fyrir allar rannsóknir á náttúrufari og menningarminjum í Vatnajökulsþjóðgarði sem eru ekki á vegum þjóðgarðsyfirvalda eða hluti af framkvæmd samþykktrar stjórnunar- og verndaráætlunar þjóðgarðsins.

Þeir sem hyggjast stunda rannsóknir innan þjóðgarðsins þurfa jafnframt að gæta að því að sækja um tilskilin leyfi til rannsókna frá öðrum aðilum, svo sem ef um er að ræða rannsóknir á örverum á jarðhitasvæðum, sjá 34. gr. laga nr. 57/1998, rannsóknir á steingervingum, sjá 60. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 eða rannsóknir á friðlýstum plöntu- eða dýrategundum. Ef flytja á út náttúrugripi (rannsóknarsýni getur fallið undir hugtakið náttúrugripur) þarf leyfi Náttúrufræðistofnunar Íslands, sjá 15. gr. laga nr. 60/1992.

Þeir sem hafa hug á að stunda rannsóknir samkvæmt 1. gr. í þjóðgarðinum skulu fylla út umsókn um leyfi og senda hana til ábyrgðaraðila umsókna (sjá nánar á vefsíðu þjóðgarðsins). Sækja skal um leyfi með minnst 30 daga fyrirvara.

SÆKJA UM LEYFI Í ÞJÓNUSTUGÁTT

 

Kvikmyndaleyfi í atvinnuskyni

Stuðst er við 1. mgr. 38. gr. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 300/2020 en þar sem segir: Afla skal leyfis þjóðgarðsvarðar vegna skipulagðra viðburða og verkefna sem kalla á aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja í þjóðgarðinum, svo sem til kvikmyndunar, listviðburða, samkomuhalds og rannsókna.

Þeir sem hafa hug á að stunda kvikmyndagerð, auglýsingagerð eða aðra slíka starfsemi innan þjóðgarðsins skulu fylla út umsókn um leyfi. Sækja skal um leyfi með minnst 30 daga fyrirvara.  Innheimt er fyrir kvikmyndaleyfi samkvæmt gjaldskrá Vatnajökulsþjóðgarðs.

SÆKJA UM LEYFI Í ÞJÓNUSTUGÁTT

 

Samningar um atvinnutengda starfsemi

Samkvæmt 1. mgr. 32. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 300/2020 er óheimilt að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Vatnajökulsþjóðgarð, sbr. einnig 15. gr. a. laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007. Atvinnutengd starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði er skilgreind í reglugerðinni sem þjónusta sem aðrir en þjóðgarðurinn sjálfur bjóða gegn þóknun innan marka þjóðgarðsins. Hefðbundin landnýting innan þjóðgarðs og starfsemi henni tengd telst ekki atvinnutengd starfsemi. Í viðauka aftast í verklagsreglu VLR-049 eru tilgreind dæmi um hvaða starfsemi fellur undir kröfu um samning við þjóðgarðinn og hvaða starfsemi er undanþegin.

Atvinnutengd starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði skiptist í eftirfarandi flokka:

 1. Starfsemi sem er þess eðlis að ekki er þörf á að setja sérstakar takmarkanir varðandi umfang eða fjölda rekstraraðila sem sinna sambærilegri starfsemi innan þjóðgarðsins eða einstakra svæða hans.
 2. Starfsemi sem er þess eðlis að þörf er á að takmarka umfang eða fjölda þeirra rekstraraðila sem sinna sambærilegri starfsemi innan þjóðgarðsins eða tiltekinna svæða hans.

Ef starfsemi þarfnast aðstöðu og/eða mannvirkja innan Vatnajökulsþjóðgarðs gildir verklagsregla nr.... (er í vinnslu) jafnframt um meðferð umsóknarinnar. Alla jafna skal samningur bæði ná til starfrækslu starfsemi og nýtingar aðstöðu/lands. Sérstakur lóðaleigusamningur skal þó gerður um leigu á lóðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs sbr. verklagsregla nr. ...(er í vinnslu).

Atvinnustarfsemin þarf einnig að vera starfrækt í samræmi við lög um Vatnajökulsþjóðgarð, reglugerð þjóðgarðsins og aðra löggjöf sem um viðkomandi starfsemi gildir, þ.m.t. lög um Ferðamálastofu nr. 96/2018 og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim.

SÆKJA UM LEYFI Í ÞJÓNUSTUGÁTT

 

Viðburðahald

Hér er hægt að sækja um leyfi til þess að halda aðra viðburði en fjallað er um hér að ofan. Dæmi um viðburði geta verið: Íþróttamót, samkomur (brúðkaup, afmæli, ættarmót o.s.frv.), tónleikar, kvikmyndasýningar o.s.frv. Sækja skal um leyfi vegna viðburðahalds með eins löngum fyrirvara og umsækjanda er unnt.

SÆKJA UM LEYFI Í ÞJÓNUSTUGÁTT

 

Lendingar mannaðra loftfara

Samkvæmt 5. mgr. 15. gr. Laga um Vatnajökulsþjóðgarð og 38. gr Reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð, skal afla leyfis þjóðgarðsvarðar til lendingar loftfars innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Sækja skal um leyfi til lendingar mannaðra loftfara með eins löngum fyrirvara og umsækjanda er unnt.

SÆKJA UM LEYFI Í ÞJÓNUSTUGÁTT

 

Ef það eru einhverjar athugasemdir við drög að verklagsreglum eða umsóknarferli þá er hægt að senda inn athugasemdir á netfangið leyfi@vjp.is.