Umsókn um leyfi

Ýmis starfsemi innan Vatnajökulsþjóðgarðs krefst leyfis eins og rannsóknir, kvikmynda- og auglýsingagerð og notkun flygilda eða dróna. Samstarf Vatnajökulsþjóðgarðs við vísindasamfélagið er bæði lögbundið og afar verðmætt. Unnið er að fjölþættum rannsóknum í síkvikri náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs ár hvert. Þjóðgarðurinn er einnig fjölsóttur vettvangur fyrir kvikmynda- og auglýsingatökur og notkun ferðafólks á flygildum er sífellt vinsælli.

Markmið með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs samkvæmt 2. gr. laga um þjóðgarðinn er að:

 • Vernda náttúru svæðisins, svo sem landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar.
 • Gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru og sögu svæðisins.
 • Stuðla að rannsóknum á svæðinu, fræða um það og ýta undir aukinn skilning almennings á gæðum og sérstöðu svæðisins.
 • Leitast við að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins, m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar gæða svæðisins.

Framangreind markmið eru leiðarljós í öllu starfi þjóðgarðsins og stefnumótun, þ.á m. þegar gerðir eru samningar um atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum. Frumskilyrði er ávallt að starfsemin samræmist þessum markmiðum.

Verklagsreglur: Tilgangur verklagsreglnanna er að upplýsa umsækjanda um þær kröfur sem gerðar eru til umsókna og umsóknargagna og hvaða kröfur þarf að uppfylla til að leyfi fáist útgefið. Þá er tilgangur verklagsreglnanna jafnframt að kynna fyrir umsækjanda hvaða verklag er viðhaft við móttöku og meðferð umsókna innan stjórnsýslu Vatnajökulsþjóðgarðs.

 

Flygildaleyfi (drónaleyfi) í afþreyingarskyni

Stuðst er við 1. mgr. 38. gr. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð (300/2020) þar sem segir: Afla skal leyfis þjóðgarðsvarðar vegna skipulagðra viðburða og verkefna sem kalla á aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja í þjóðgarðinum, svo sem til kvikmyndunar, listviðburða, samkomuhalds og rannsókna. Þá skal afla leyfis þjóðgarðsvarðar til lendingar loftfars og notkun fjarstýrðra loftfara innan Vatnajökulsþjóðgarðs. 

Notkun fjarstýrðra loftfara (dróna) innan Vatnajökulsþjóðgarðs er háð leyfi þjóðgarðsyfirvalda. Við mat á umsóknum tekur þjóðgarðsvörður ákvörðun um veitingu leyfis á grundvelli eftirfarandi sjónarmiða:

 1. Verndun dýralífs innan þjóðgarðsins;
 2. Öryggi gesta
 3. Markmið þjóðgarðsins um gæðaupplifun gesta í þjóðgarðinum.
 4. Mengunarvarnir

Þjóðgarðsverðir geta heimilað notkun fjarstýrðra loftfara sé það tryggt að notkun þeirra fari ekki gegn þeim sjónarmiðum sem nefnd eru hér ofar.

Listi yfir svæði þar sem ekki eru gefin út leyfi til að fljúga flygildum (drónum) (nema mögulega vegna rannsókna og kvikmyndunarverkefna, sjá þar til gerð umsóknarform)

 • Skaftafell (Svartifoss, Skaftafellsheiði, Morsárdalur, Kjós og Skaftafellsfjöll o.fl.) – Eini staðurinn í Skaftafelli þar sem flygildaleyfi eru veitt er fyrir framan Skaftafellsjökul.
 • Jökulsárlón og Fellsfjara frá 15. apríl til 15. júlí – vegna fuglaverndar.
 • Jökulsárgljúfur (m.a. Ásbyrgi, Vesturdalur, Hljóðaklettar, Hafragilsfoss) – vegna fuglaverndar, öryggis og til að tryggja gæðaupplifun gesta.
 • Askja - Til að tryggja kyrrðarupplifun gesta.

Á nokkrum áningarstöðum og þjónustusvæðum á hálendinu geta landverðir veitt munnlegt leyfi fyrir notkun fjarstýrðs loftfars. Mat um leyfisveitingu byggir á ástandi lífríkis og/eða tilteknum tíma dags þegar ekki er umferð ferðafólks (snemma morguns eða seinnipart/kvöld). Landvörður skráir leyfisveitinguna á þar til gert eyðublað. Þetta á við á eftirtöldum svæðum:

1. Drekagil 6. Þjónustusvæði við Snæfellsskála
2. Herðubreiðarlindir 7. Skaftafellsjökull
3. Hvannalindir 8. Eldgjá
4. Kverkjökull 9. Sveinstindur
5. Þjónustusvæði við Sigurðarskála 10. Laki

 

Vakin er athygli á því að lögregla og björgunarsveitir þurfa ekki að afla leyfis vegna sinna starfa en æskilegt er að þeir láti starfsmenn þjóðgarðsins vita um notkun fjarstýrðra loftfara á þeirra vegum, eftir atvikum eftir á.

Athugið að ekki skal sækja um flygildaleyfi ef verkefnið er í hagnaðarskyni, heldur skal sækja um kvikmynda- og auglýsingaleyfi í atvinnuskyni (sjá neðar á þessari síðu). Ef flugið er í tengslum við rannsóknarverkefni, þarf ekki að sækja sérstaklega um flygildaleyfi. Sjá rannsóknarleyfi neðar á síðunni.

Sækja skal um leyfi með að minnsta kosti 10 daga fyrirvara. Vatnajökulsþjóðgarður mælir þó ekki með því að sótt sé um með meira en fjögurra vikna fyrirvara.

SÆKJA UM LEYFI Í ÞJÓNUSTUGÁTT

 

Rannsóknarleyfi

Eitt af markmiðum með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er að stuðla að rannsóknum á svæðinu, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007. Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 300/2020 skal afla leyfis þjóðgarðsvarðar vegna allra verkefna sem kalla á aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja í þjóðgarðinum, þ.m.t. vegna rannsókna innan þjóðgarðsins. Sækja þarf um leyfi samkvæmt þessu fyrir allar rannsóknir á náttúrufari og menningarminjum í Vatnajökulsþjóðgarði sem eru ekki á vegum þjóðgarðsyfirvalda eða hluti af framkvæmd samþykktrar stjórnunar- og verndaráætlunar þjóðgarðsins.

Þeir sem hyggjast stunda rannsóknir innan þjóðgarðsins þurfa jafnframt að gæta að því að sækja um tilskilin leyfi til rannsókna frá öðrum aðilum, svo sem ef um er að ræða rannsóknir á örverum á jarðhitasvæðum, sjá 34. gr. laga nr. 57/1998, rannsóknir á steingervingum, sjá 60. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 eða rannsóknir á friðlýstum plöntu- eða dýrategundum. Ef flytja á út náttúrugripi (rannsóknarsýni getur fallið undir hugtakið náttúrugripur) þarf leyfi Náttúrufræðistofnunar Íslands, sjá 15. gr. laga nr. 60/1992.

Þeir sem hafa hug á að stunda rannsóknir samkvæmt 1. gr. í þjóðgarðinum skulu fylla út umsókn um leyfi og senda hana til ábyrgðaraðila umsókna (sjá nánar á vefsíðu þjóðgarðsins). Sækja skal um leyfi með minnst 30 daga fyrirvara.

SÆKJA UM LEYFI Í ÞJÓNUSTUGÁTT

 

Kvikmynda- og auglýsingaleyfi í atvinnuskyni

Stuðst er við 1. mgr. 38. gr. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 300/2020 en þar sem segir: Afla skal leyfis þjóðgarðsvarðar vegna skipulagðra viðburða og verkefna sem kalla á aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja í þjóðgarðinum, svo sem til kvikmyndunar, listviðburða, samkomuhalds og rannsókna.

Þeir sem hafa hug á að stunda kvikmyndagerð, auglýsingagerð eða aðra slíka starfsemi innan þjóðgarðsins skulu fylla út umsókn um leyfi. Sækja skal um leyfi með minnst 30 daga fyrirvara.  Innheimt er fyrir kvikmynda- og auglýsingaleyfi samkvæmt gjaldskrá Vatnajökulsþjóðgarðs.

SÆKJA UM LEYFI Í ÞJÓNUSTUGÁTT

 

Viðburðahald

Hér er hægt að sækja um leyfi til þess að halda aðra viðburði en fjallað er um hér að ofan. Dæmi um viðburði geta verið: Íþróttamót, samkomur (brúðkaup, afmæli, ættarmót o.s.frv.), tónleikar, kvikmyndasýningar o.s.frv. Sækja skal um leyfi vegna viðburðahalds með eins löngum fyrirvara og umsækjanda er unnt. Í þeim tilfellum þar sem þjóðgarðurinn þarf að leggja til starfsfólk gæti verið innheimt gjald fyrir viðburðaleyfi samkvæmt gjaldskrá Vatnajökulsþjóðgarðs.

 SÆKJA UM LEYFI Í ÞJÓNUSTUGÁTT

 

Lendingar mannaðra loftfara

Samkvæmt 5. mgr. 15. gr. Laga um Vatnajökulsþjóðgarð og 38. gr Reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð, skal afla leyfis þjóðgarðsvarðar til lendingar loftfars innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Sækja skal um leyfi til lendingar mannaðra loftfara með eins löngum fyrirvara og umsækjanda er unnt.

SÆKJA UM LEYFI Í ÞJÓNUSTUGÁTT