Stjórnunar- og verndaráætlun er aðalstjórntæki þjóðgarðsins. Áætlunin er byggð á tillögum svæðisráða og stjórnar og mótuð í samráði við hagsmunaaðila. Tilgangur hennar er að feta slóð jafnvægis milli verndunar og landnýtingar með grunnstefið fólgið í markmiðum þjóðgarðsins um verndun, aðgengi, fræðslu og byggðaþróun. Í tengslum við nýtingu er veigamikið hlutverk að stýra álagi og landnotkun með sjálfbærni að leiðarljósi.
Fyrsta útgáfa Stjórnunar- og verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs var samþykkt árið 2011 og endurbætt í 2.útgáfu 2013. Í tengslum við ný svæði innan þjóðgarðs hafa verið unnir viðaukar vegna Krepputungu og Breiðamerkursands. Í ljósi mikillar þróunar í ferðamennsku, náttúruvernd og stjórnsýslu voru afmarkaðir þættir áætlunarinnar teknir til endurskoðunar 2021, áðurnefndir viðaukar prjónaðir við og að auki ákvæði um veiðar á austursvæði tekin til endurskoðunar. Þar með varð til 3.útgáfa Stjórnunar- og verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs.
Sem stendur eru í vinnslu viðaukar vegna Herðubreiðar og þess hluta Ódáðahrauns sem bættist við þjóðgarðinn 2019. Ennfremur stendur yfir vinna við viðauka vegna þeirra svæða sem bættust við þjóðgarðinn á árinu, þ.e. Austurafrétt Bárðdæla, Sandfell í Öræfum og Hoffellslambatungur. Nánar um þau verkefni hér.
Auk áðurnefndra viðbóta liggur fyrir að taka stjórnunar- og verndaráætlun til endurskoðunar í heild sinni. Til þess verks þarf að vanda með gagngerri rýni grunnforsendna líkt og verndargildis og svæðaskiptingar (e. zoning), svo og skipulagi innviða með tilliti til ólíkra hagsmunahópa. Forsenda þeirrar vinnu er víðtækt samráð við hlutaðeigandi fagstofnanir og hagsmunaaðila. Í allri vinnu við stjórnunar- og verndaráætlanir, miðar Vatnajökulsþjóðgarður að gagnsæi og góðri upplýsingagjöf.
- Hafir þú spurningar eða ábendingar – hikaðu ekki við að hafa samband á vjp@vjp.is eða í síma 575-8400.
Að neðan má nálgast öll gögn sem við koma Stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs: