Beint í efni

Erfiðleikastuðull gönguleiða

Gönguleiðir innan Vatnajökulsþjóðgarðs eru flokkaðar og merktar samkvæmt erfiðleikastuðli. Kerfið er byggt á samskonar kerfum og þekkjast í Evrópu og miðast við undirlag leiðar. Vakin er athygli á því að kerfið tekur ekki tillit til lengdar gönguleiðar né heldur hversu erfitt er að rata hana.Hér að neðan er táknmynd hvers erfiðleikastuðuls og stutt lýsing á hvað í honum felst:

Auðveld leið - blá leið

Góðir stígar með sléttu undirlagi að jafnaði, án teljandi hindranna eða erfiðleika.

Krefjandi leið - rauð leið

Leiðir og stígar sem geta falið í sér lengri óslétta og erfiða kafla og hindranir, svo sem óbrúaða læki og minni ár, lausamöl, há uppstig o.s.frv.

Erfið leið - svört leið

Leiðir og stígar sem fela í sér hindranir og erfiðleika á borð við stærri óbrúaðar ár, brattlendi og klettahöft, sem óvönum og við slæmar aðstæður geta verið hættulegar.

Stígur fær einstaklingum með gönguhömlun - græn leið

Stígar eru með bundnu slitlagi, timburpallar eða þjöppuðu malarlagi án lausamalar á yfirborði. Rifur á milli fjala og eða hella mega ekki vera meiri en 5mm. Stígar eru yfir 75 cm breiðir. Halli á stíg og eða skábraut fer að jafnaði ekki yfir 1:15 (6,7%) og aldrei yfir 1:12 (8%). Bil á milli handriða er um 90 cm og aldrei meira en 120 cm. Hvíldarsvæði með bekkjum eru með um 100 m millibili.

Stígur fær einstaklingum í hjólastól án aðstoðarmanns - græn leið

Stígar eru með bundnu slitlagi, timburpallar eða þjöppuðu malarlagi án lausamalar á yfirborði. Rifur á milli fjala og eða hella mega ekki vera meiri en 5mm. Stígar eru 90 cm eða breiðari. Halli á stíg og eða skábraut er að jafnaði ekki yfir 1:15 (6,7%), þurfi að brúa meiri hækkun t.d. með þrepum þá séu ekki fleiri en eitt þrep í einu og ekki fleiri en 3 stök þrep á hverja 50 m. Hvíldarflötur sé ekki styttra en 120 cm eftir hvert þrep. Hvert þrep sé ekki hærra en 15 cm. Hvíldarsvæði með bekkjum eru með um 100 m. millibili og með a.m.k. 90 cm breiðu svæði fyrir hjólastóla við bekkina. Hliðarkantar á skábrautum a.m.k. 4 cm.

Stígur fær einstaklingum í hjólastól með aðstoðarmann - græn leið

Stígar eru með bundnu slitlagi, timburpallar eða þjöppuðu malarlagi án lausamalar á yfirborði. Rifur á milli fjala og eða hella má ekki vera meiri en 5mm. Stígar eru 90 cm eða breiðari. Halli á stíg og eða skábraut fari að jafnaði ekki yfir 1:20 (5%), þurfi að brúa meiri hækkun skulu vera hjálparhandriði á þeim stöðum, þó fari halli aldrei yfir 1:15 (6,7%), bil á milli handriða sé um 90 cm og aldrei meira en 120 cm. Hliðarhalli á stígum sé að jafnaði ekki meiri en 1:50 (2%). Hvíldarsvæði með bekkjum séu með um 100 m millibili og með a.m.k. 90 cm breiðu svæði fyrir hjólastóla við bekkina. Meðfram skábrautum skal vera hliðarkantar a.m.k. 4 cm háir.