Upplýsingar til veiðimanna

Almennt um veiðar

Hefðbundin landnýting, svo sem fuglaveiði, hreindýraveiði og veiði í ám og vötnum er rétthöfum heimil á þeim svæðum sem tilgreind eru í reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 608/2008 með síðari breytingu í reglugerð nr. 755/2009, viðauka III, sbr. 26. gr. reglugerðarinnar, enda séu uppfyllt ákvæði laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994 og annarra laga sem um nýtinguna fjalla.

Veiðar í ám og vötnum, sem og fugla- og hreindýraveiðar, eru einungis heimilar almenningi á sömu svæðum, þ.e. þeim sem falla undir viðauka III, sbr. 26. gr. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð, nema settar séu sérstakar takmarkanir um hana á viðkomandi svæðum.

Tryggja skal að veiði sé sjálfbær, til dæmis með leyfisveitingum eða öðru, eftir því sem við á. Meta þarf ástand á veiði og veiðistofnum og vakta þróun svo að tryggja megi sjálfbæra nýtingu. Einnig skal tryggja, í samstarfi við rétthafa eftir því sem við á, að landnýting valdi ekki spjöllum.

Veiðimenn eru minntir á mikilvægi góðrar umgengni við veiðar. Þær skal stunda í hófi og af virðingu fyrir veiðibráð, umhverfinu og öðrum gestum þjóðgarðsins.

Allar veiðar, aðrar en minkaveiðar, eru bannaðar á eftirtöldum svæðum:

• Í Jökulsárgljúfrum, skv. afmörkun þeirra í reglugerð.

• Í Skaftafelli, skv. afmörkun í reglugerð.

Hreindýraveiðar

Hreindýraveiðar eru heimilar á Snæfellsöræfum, milli Hálslóns og Jökulsár í Fljótsdal, frá 15. ágúst. Slík takmörkun gilti frá því upp úr miðri síðustu öld og fram til ársins 2006. Með þessu móti fá kýr og kálfar næði til að fita sig fyrir veturinn og þar að auki eru minni líkur á að hagsmunaárekstrar verði milli ferðamanna og veiðimanna á svæðinu á þessum tíma. 

Við hreindýraveiðar er þó heimilt að fella dýr allt að 1.000 metrum fyrir innan þjóðgarðsmörk fyrir 15. ágúst en einungis þegar verið er að elta hjörð. Komi til slíks skal leiðsögumaður á hreindýraveiðum tilkynna það svo fljótt sem auðið er til landvarða í Snæfelli eða þjóðgarðsvarðar.

Gæsaveiðar

Gæsaveiðar á austursvæði þjóðgarðsins eru heimilar frá 20. ágúst í venjulegu árferði. Þjóðgarðsverði, að höfðu samráði við náttúrustofu Austurlands, er þó heimilt að gefa út tilkynningu um seinkun veiða, gefi mat viðurkenndra aðila á varpframvindu heiðargæsar á svæðinu að vori ástæðu til frestunar. Slíka tilkynningu skal gefa út eigi síðar en 15. júlí ár hvert. Gæsaveiðar á austursvæði hefjast 20. ágúst árið 2021.

Griðland við Snæfell og austan þess

Innan griðlands eru veiðar á fuglum og hreindýrum ekki heimilar, m.a. vegna: mikilvægra varplanda og fellistaða, votlendis sem nýlega varð alþjóðlegt verndarsvæði (RAMSAR) og vegna gildis svæðisins fyrir almenna útivist og náttúruskoðun. Griðlandið er um 117 km2 og er Snæfellsskáli innan þess.

Mörk griðlands
Austurmörk fylgi austustu kvísl Jökulsár í Fljótsdal frá upptökum og norður að vaði. Þaðan bein lína vestur í Sótaleiði og frá þeim yfir á toppinn á Sandfelli. Frá honum yfir á Nálhúshnjúk og síðan í toppinn á Tíutíu. Línan fylgi svo Snæfellsslóð þar sem hún fer yfir Grjótlæki og að vaði við Langahnjúk þar sem hún fer í topp hans og þaðan í topp Ketilhnjúks. Bein lína þaðan í topp Litla-Snæfells og síðan í upptök vestustu kvíslar Jökulsár í Fljótsdal. Suðurmörk fylgja síðan jaðri Eyjabakkajökuls að upptökum austustu kvíslar Jökulsár í Fljótsdal.

Kort af veiðigriðlandi við Snæfell er að finna hér [PDF 2MB].

Refaveiðar

Veiðar á ref eru heimilar skv. almennum reglum þar um enda skulu þær stundaðar samkvæmt villidýralögum nr. 64/1994 og veiðireglum viðkomandi sveitarfélaga, með viðurkenndum veiðiaðferðum. Grenjavinnsla skal vera í samráði við þjóðgarðsvörð en tilkynningaskylda um veidd hlaupadýr.

Refaveiðar eru þó ekki heimilar á eftirtöldum svæðum:

• Í Skaftafelli.

• Í Jökulsárgljúfrum.

• Í Esjufjöllum.

Minkaveiðar

Stefnt er að útrýmingu minks. Veiðar á mink skulu stundaðar samkvæmt veiðireglum viðkomandi sveitarfélaga, með viðurkenndum veiðiaðferðum og í samráði við þjóðgarðsvörð. Halda skal skrá yfir veidd dýr og skila henni til þjóðgarðsvarðar.

Veiðar í ám og vötnum

Veiðar í ám og vötnum skv. almennum reglum þar um eru einungis heimilar á svæðum þar sem hefðbundin landnýting er heimil.