Upplýsingar til veiðimanna

Almennt um veiðar

Hefðbundin landnýting, svo sem fuglaveiði, hreindýraveiði og veiði í ám og vötnum er rétthöfum heimil á þeim svæðum sem tilgreind eru í reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 608/2008 með síðari breytingu í reglugerð nr. 755/2009, viðauka III, sbr. 26. gr. reglugerðarinnar, enda séu uppfyllt ákvæði laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994 og annarra laga sem um nýtinguna fjalla.

Veiðar í ám og vötnum, sem og fugla- og hreindýraveiðar, eru einungis heimilar almenningi á sömu svæðum, þ.e. þeim sem falla undir viðauka III, sbr. 26. gr. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð, nema settar séu sérstakar takmarkanir um hana á viðkomandi svæðum.

Tryggja skal að veiði sé sjálfbær, til dæmis með leyfisveitingum eða öðru, eftir því sem við á. Meta þarf ástand á veiði og veiðistofnum og vakta þróun svo að tryggja megi sjálfbæra nýtingu. Einnig skal tryggja, í samstarfi við rétthafa eftir því sem við á, að landnýting valdi ekki spjöllum.

Veiðimenn eru minntir á mikilvægi góðrar umgengni við veiðar. Þær skal stunda í hófi og af virðingu fyrir veiðibráð, umhverfinu og öðrum gestum þjóðgarðsins.

Allar veiðar, aðrar en minkaveiðar, eru bannaðar á eftirtöldum svæðum:

• Í Jökulsárgljúfrum, skv. afmörkun þeirra í reglugerð.

• Í Skaftafelli, skv. afmörkun í reglugerð.

Refaveiðar

Veiðar á ref eru heimilar skv. almennum reglum þar um enda skulu þær stundaðar samkvæmt villidýralögum nr. 64/1994 og veiðireglum viðkomandi sveitarfélaga, með viðurkenndum veiðiaðferðum. Grenjavinnsla skal vera í samráði við þjóðgarðsvörð en tilkynningaskylda um veidd hlaupadýr.

Refaveiðar eru þó ekki heimilar á eftirtöldum svæðum:

• Í Skaftafelli.

• Í Jökulsárgljúfrum.

• Í Esjufjöllum.

Minkaveiðar

Stefnt er að útrýmingu minks. Veiðar á mink skulu stundaðar samkvæmt veiðireglum viðkomandi sveitarfélaga, með viðurkenndum veiðiaðferðum og í samráði við þjóðgarðsvörð. Halda skal skrá yfir veidd dýr og skila henni til þjóðgarðsvarðar.

Veiðar í ám og vötnum

Veiðar í ám og vötnum skv. almennum reglum þar um eru einungis heimilar á svæðum þar sem hefðbundin landnýting er heimil.