Umferð og dvöl

Umferð og dvöl í þjóðgarðinum

GönguhópurGestir eru velkomnir í Vatnajökulsþjóðgarð allt árið um kring.

Í þjóðgörðum á náttúran að fá að þróast sem mest eftir eigin lögmálum. Því ber að umgangast hana af varúð og virðingu og eru gestir beðnir um að hafa í huga að jarðhitasvæði, mosar, stuðlaberg og hraun eru sérstaklega viðkvæm fyrir átroðningi. Ekki er heimilt að fjarlægja steina og plöntur né heldur að hlaða vörður. Ennfremur skal forðast að trufla dýralíf.

Gæludýr í tryggri vörslu eru velkomin en gæta skal þess að þau valdi ekki truflun á lífríki þjóðgarðsins eða ónæði fyrir gesti.

Heimilt er að kveikja varðeld á merktum eldstæðum ef gestir koma með eldivið með sér. Óheimilt er að kveikja opinn eld á víðavangi og afla eldiviðar innan marka þjóðgarðsins. Óheimilt er að urða eða brenna sorp innan þjóðgarðsins.

Gangandi gestum þjóðgarðsins ber að fylgja göngustígum þar sem þeir eru greinilegir. Heimilt er að fara á reiðhjólum um vegi, merktar reiðhjólaleiðir og göngustíga þar sem ekki gildir sérstakt bann við reiðhjólaumferð. Umferð hesta er heimil á skilgreindum reiðleiðum. Akstur vélknúinna ökutækja er einungis heimill á viðurkenndum akstursleiðum.

Veiðar á fuglum og hreindýrum og veiðar í ám og vötnum eru heimilar á þeim svæðum þjóðgarðsins þar sem hefðbundin landnýting er leyfð. Allar veiðar aðrar en minkaveiðar eru bannaðar í Jökulsárgljúfrum, í Skaftafelli og innan griðlands við Snæfell. Utan griðlands á Snæfellsöræfum er heimilt að hefja hreindýraveiðar 15. ágúst og gæsaveiðar 1. september.

Akstur í þjóðgarðinum

Þjóðgarðsyfirvöld hafa lagt kapp á að tengja alla helstu staði þjóðgarðsins með skilgreindum vegum og jafnframt að grisja samsíða slóðir og villuslóða sem myndast hafa við utanvegaakstur í áranna rás.

Vegir sem opnir eru almennri umferð eru merktir á kort þjóðgarðsins og önnur kort sem eru í samræmi við Stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs. Aðrar slóðir eru lokaðir almennri umferð, þótt þær séu greinilegar á yfirborði lands og án tillits til þess hvort þær eru merktar inn á önnur kort og uppdrætti. Unnið er að því að afmarka opinbera vegi þjóðgarðsins með skýrum hætti.

Hjólför myndast auðveldlega í íslenskan eldfjallajarðveg, hvort sem um er að ræða gróna jörð, sanda eða mela. Þau eru mikið lýti í landi og geta orðið upphafið að alvarlegu gróður- og jarðvegsrofi. Ný hjólför utan vegar hafa aðdráttarafl fyrir aðra ökumenn og hvetja til frekari utanvegaaksturs. Hjólför hverfa seint af sjálfu sér og tímafrekt og erfitt getur reynst að afmá þau. Ökumenn eru því beðnir að halda sig á opinberum vegum þjóðgarðsins og hafa í huga alvarlegar afleiðingar utanvegaaksturs og ströng viðurlög sem gilda við honum.

Vetrarakstur á frosinni jörð og á snjó eða jökli er heimill með örfáum undantekningum. Grein er gerð fyrir þessum undantekningum í reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð.

Við mælum með að skoða Fræðsluplakat frá Ferðaklúbbnum 4x4

 

Reglur þessar eru í samræmi við 2. kafla reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 608 frá 7. júní 2008 og Stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar er ítarlegar fjallað um þær umgengnisreglur sem í gildi eru í þjóðgarðinum.