Beint í efni

Árstíðir

Ferðalög um Ísland krefjast undirbúnings því veðrið er síbreytilegt og aðstæður fjölbreyttar.

Vatnajökulsþjóðgarður er að mestu í og við fjallendi og á hálendi Íslands þar sem sumur eru stutt, veður breytist fljótt og færð getur spillst vegna vatnavaxta, sandfoks og jafnvel snjóa, hvenær árs sem er. Við mælum því með eftirfarandi verkfærum og ráðum:

  • Skoða ferðaráð þjóðgarðsins
  • Veður: Fylgist með veðri og veðurspám frá Veðurstofu Íslands, vedur.is
  • Vegir: Kannið ástand og opnanir/lokanir vega hjá Vegagerðinni, vegagerdin.is
  • Upplýsingar: Kynnið ykkur áfangastaðinn vel t.d. hérna á vefnum. Ekki hika við að hafa samband við gestastofur eða landvörslustöðvar til að fá nýjustu upplýsingar og góð ferðaráð
  • Skráning: Við mælum með að skrá ferðaáætlun þegar við á, safetravel.is
  • Neyðarnúmer: 112

Aðgengi og aðstæður eftir árstíðum

Vetur

Svæði, gestastofur, tjaldsvæði og áfangastaðir við þjóðveg eitt eru aðgengileg svo lengi sem færð og veður leyfir. Snjór þekur fjöll og hæðir og vegir og göngustígar geta verið hálir. Mælt er með hálkubroddum og viðeigandi dekkjum t.d. vetrar-, heilsárs- eða nagladekkjum. Vegir á hálendi loka en svæðin eru áfram opin fyrir vetrarferðamennsku.

Aðgengileg svæði yfir vetrartímann

Skaftafell

Jökulsárlón og Breiðamerkursandur

Heinaberg

Jökulsárgljúfur

Vor

Í apríl fer að vora og snjó leysir og frost fer úr jörðu. Svæði, gestastofur, tjaldsvæði og áfangastaðir við þjóðveg eitt eru aðgengileg svo lengi sem færð og veður leyfir. Stígar og gróður eru viðkvæmir í leysingum og oft er mikil aurbleyta og hætta á skemmdum. Gönguleiðir geta því oft verið lokaðar til að vernda þær fyrir skemmdum.

Sumar

Vinsælasti tíminn til að heimsækja þjóðgarðinn er yfir sumarið fyrir ferðafólk og farfugla. Öll svæði verða aðgengileg með opnun fjallvega og góðu veðri. Svæði á hálendi opnast þegar að snjóa leysir og varptíma er lokið en fylgjast má með hálendiskorti Vegagerðarinnar til að sjá opna og lokaða vegi. Ferðafólk þarf að sækja sér upplýsingar um veður og færð enda geta aðstæður breyst hratt á fjöllum og hálendi. Vaxið getur í ám og jafnvel farið að snjóa.

Sjá öll svæði þjóðgarðsins

Haust

Í september tekur að hausta og þá breytist ásýnd þjóðgarðsins með haustlitunum. Viðvera landvarða á hálendinu dettur niður og fólk fer af fjöllum. Ferðafólk þarf að sækja sér upplýsingar um veður og færð og árstíðin býður bæði upp á hauststillur eða haustlægðir.