Lónsöræfi

Gönguleiðir í LónsöræfumEskifell - Kambar - Illikambur
Fjárgötur liggja frá eyðibýlinu Eskifelli inn úr Kömbum á Illakamb fram með hrikalegu gljúfri Jökulsár. Þessi leið liggur mun lægra en ef fylgt er bílaslóðinni yfir Kjarrdalsheiði.

Múlaskáli - Kollumúlavatn - Geldingafell
Gengið með Jökulsá inn um Leiðartungur upp á Sanda að skála við Kollumúlavatn.  Þaðan um Tröllakrókahnaus (809 m) norður Kollumúlahraun og um Vatnadæld að skála norðan undir Geldingafelli.  Þaðan liggur leið yfir Eyjabakkajökul til Snæfells, en einnig má ganga yfir Múlahraun að Eyjabökkum og fylgja Jökulsá niður í Fljótsdal.

Múlaskáli - Kollumúlavatn - Múladalur/Geithellnadalur
Inn Leiðartungur upp á Sanda að Kollumúlavatni.  Þaðan inn Kollumúlaheiði, yfir Víðidalsá á Norðlingavaði og fram með Hnútuvatni um Háás niður í Múladal þar sem lítill ferðamannaskóli er við Leirás.  Jeppaslóð er út dalinn röska 20 km leið til byggða.  Sami dalur heitir Geithellnadalur austan ár.

Víðidalsdrög - Sauðárvatn - Suðurdalur í Fljótshlíð
Frá Norðlingavaði á Víðidalsá er haldið inn Víðidalsdrög austan ár og fylgt gömlum vörðum yfir sýslumörk á Víðidalsvarpi.  Liggur varðaða leiðin rétt vestan Sauðárvatns og var þaðan riðið um Þorgerðarstaðadal niður í Suðurdal í Fljótsdal.  Stysta gönguleið til byggða liggur hins vegar austan Sauðárvatns og út á Kiðufell (Suðurfell) og niður af fellinu utan Ófæruár og yfir Fellsá á göngubrú við bæinn Sturluflöt.

Gjögur - Meingil - Stórihaus
Stikuð leið frá Múlaskála um Gjögur að Meingili og upp með því að vestan að tveimur hengifossum.  Þaðan ofan við Stórahnaus og niður skriður utan við Stórahnausgil að skála.  Gatan um Gjögur er tæp á kafla og varhugaverð fyrir lofthrædda.

Múlakollur
Á Múlakoll (901 m) er m.a. hægt að ganga frá leiðinni um Gjögur eða nær beint upp frá Múlaskála.  Lengri leið er um Leiðartungur og frá Söndum suðaustur á koll.  Frá brúnum hans litlu sunnar blasir við Sviptungnakollur, Hnappadalstindur og Grísatungnagil austan Víðidalsár.  Til baka er hægt að fara niður milli gilja.

Grund í Víðidal
Til Víðidals er farið um Leiðartungur og austur yfir Sanda.  Bæjarstæðið á Grund er í sveif  í um 400 m hæð austan Víðidalsár undir hlíðum Hofsjökuls.  Þar sér vel til rústa frá síðustu byggðinni 1883 - 1897.  Víðidalsá er óbrúuð og getur verið illvæð eða ófær en stundum má komast yfir hana á snjóbrú í árgilinu norðar.  Frá Grund er gönguleið um skarð sunnan Hofsjökuls til Hofsdals eða Flugustaðadals í Álftafirði.

Jökulsárdalur - Tröllakrókar - Vesturdalur
Skemmtileg en stíf dagsganga er inn Jökulsárdal um Stórsteina og Tröllakróka inn í Vesturdal.  Rétt er að fylgja ekki Jökulsá milli Leiðartungna og Stórsteina vegna skriðuhafts við ána á kafla.  Komast má upp á Kollumúla innarlega um skriður innan við Tröllakróka og ganga út brúni múlans og um Leiðartungur til baka.

Sauðhamarstindur
Ganga á Sauðhamarstind (1319 m) er talsvert príl og vissara að hafa með sér brodda og ísöxi.  Ganga má um Víðibrekkusker eða eftir gili sem er litlu sunnar en Múlaskáli.  Komast þarf um skriðu upp á hátt klettabelti og um fannir á Röðul sem myndar suðaustur öxl fjallsins og þaðan á hæsta tindinn.  Nánari leiðsögn hjá landverði.

Skyndidalur - Keiluvellir - Hoffellsdalur
Frá Jökulsársandi er þægileg ganga inn norðanverðan Skyndidal að Keiluvöllum.  Þar innan við fellur Lambatungnaá allströng í Skyndidalsá.  Ganga má yfir Lambatungnajökul eða vaða Skyndidalsá og halda upp Nautastíg og um varp suður í Hoffelsdal.