Snæfell

Snæfell (1833 m) er hæsta fjall Íslands utan jökla og er fjallið sjálft og svæðið umhverfis það innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs. Snæfell er nokkuð keilulaga, enda forn megineldstöð sem hefur ekki rumskað í 10 þúsund ár. Mun það hafa myndast síðla á ísöld og er því yngsta eldstöð Austurlands. Vegna þess, hve hátt Snæfell rís hverfa efstu fannir þess ekki á sumrin og í því eru stuttir brattir skriðjöklar.

Ferðahópur dvelur í Snæfellskála að vori, mynd: Helga Árnadóttir

Við Snæfell er gistiskáli í eigu Vatnajökulsþjóðgarðs og tjaldsvæði. Tiltölulega auðvelt er að ganga þaðan á fjallið, en af toppnum er á góðum degi afbragðsútsýni til allra átta. Skálinn var byggður af Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs og hægt er að skoða áhugaverðar myndir af sögu skálans á vef þeirra hér.

Landverðir

Skála- og landverðir eru í Snæfelli á sumrin og veita þeir ferðamönnum upplýsingar um svæðið og þjóðgarðinn. GPS-hnit Snæfellsskála er N 64° 48.250' - W 015° 38.600'. Símanúmer landvarða er 842 4367.

Vega- og almenningssamgöngur

Frá Egilsstöðum er farinn Upphéraðsvegur (1 og 931) framhjá Hengifossi og beygt upp á Fljótsdalsheiði á slitlagsbundinn veg (910) sem liggur áleiðis að Kárahnjúkum og frá honum fjallvegur F909 að Snæfellsskála og áfram alveg inn að jökli. Engar reglubundnar áætlunarferðir eru í Snæfell.

Gisting, matur og eldsneyti

Snæfellsskáli

Snæfellsskáli er við Snæfell, þar er gisting fyrir u.þ.b. 45 manns og einnig tjaldsvæði, vatnssalerni og sturtur. Fyrirspurnir og bókanir í síma 842-4367 (á sumrin), 470-0840 eða snaefellsstofa@vjp.is

Upplýsingar um verð í skálagistingu eru hér.

Í Snæfelli er hvorki veitinga- né eldsneytissala. Veitingasala, gisting og önnur þjónusta er þó rekin í jaðri svæðisins, í Laugarfelli (sjá ferðaþjónustuvefinn www.east.is).

Gestastofa þjóðgarðsins Snæfellsstofa er staðsett í u.þ.b. 50 km frá Snæfelli á Skriðuklaustri í Fljótsdal ásamt Gunnarsstofnun og Klausturkaffi.

Afþreying

Fjöldi stikaðra og óstikaðra gönguleiða er við Snæfell og á Snæfellssöræfum. Inn við jökul má finna gestagötuna „Í faðmi jökla“.  Nokkrir ferðaþjónustuaðilar bjóða upp á ferðir bæði sumar sem vetur á svæðinu, nánari upplýsingar um göngu-, jeppa- og hestaferðir má finna á ferðaþjónustuvef fyrir Austurland www.east.is og www.traveleast.is.

Vestan Snæfells og austan Jökulsár á Brú eru Vesturöræfi og þar vestur af Brúaröræfi. Bæði Vesturöræfi og Brúaröræfi eru megindvalarstaðir hreindýra. Norðan Snæfells eru Nálhúshnjúkar og sunnan þess eru Þjófahnúkar, en þaðan er gott útsýni yfir Eyjabakkasvæðið; sléttlendi alsett flæðimýrum og mikilvægt bæði hreindýrum og heiðargæsum. Skemmtileg gönguleið liggur frá Snæfelli yfir Eyjabakkajökul að skála við Geldingafell og þaðan suður Lónsöræfi.

 

Lónsöræfi

Friðlandið í Stafafellsfjöllum gengur í daglegu tali undir heitinu Lónsöræfi. Þar er mikil fjölbreytni í formum og litum og mikið um líparít, holufyllingar og fagra steina. Víða eru grónir balar og ekki ólíklegt að menn rekist á hreindýr á ferð sinni um fjöllin. Lónsöræfi voru friðlýst árið 1977 og eru nú í umsjá Vatnajökulsþjóðgarðs. Frá miðjum sjöunda áratug síðustu aldar hafa ferðamenn lagt leið sína þangað í einhverjum mæli og hafa Lónsöræfi notið stigvaxandi vinsælda meðal göngufólks. Er nú net gönguleiða um svæðið, göngubrýr og skálar.

Landverðir

Landvörður hefur aðsetur í Lónsöræfum við Múlaskála (GPS-hnit N64° 33.200' - W015° 09.077'). Símasamband er mjög takmarkað á svæðinu. 

Vegasamgöngur

Frá þjóðvegi 1 liggur vegslóð (F980) upp að Illakambi en hún er torfær. Sérstaklega ber að varast vað á Skyndidalsá sem er straumhörð og oft vatnsmikil. Frá Illakambi er um 40 mínútna gangur að Múlaskála.

Gisting og matur

Fjallaskálar

Nokkrir fjallaskálar eru í friðlandinu í Lónsöræfum eða jaðri þess. Í Kollumúla er  Múlaskáli í eigu Ferðafélags Austur-Skaftfellinga (sjá www.gonguferdir.is). Þar er einnig Múlakot, íverustaður landvarða Vatnajökulsþjóðgarðs. Við Eskifell er skáli í einkaeigu. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs rekur skálan Egilssel við Kollumúlavatn og annan við Geldingafell. Einnig er skáli við Leirás (Ferðafélag Djúpavogs). Vatnsklósett og sturta eru í Kollumúla og þurrklósett við Eskifell.

Matur

Hvorki er hægt að kaupa mat né eldsneyti á svæðinu.