Gönguleiðir

 
Hér er stungið upp á nokkrum gönguleiðum í Skaftafelli. Hafa ber í huga að uppgefnar vegalengdir og göngutími eru til viðmiðunar.

 

S1: Skaftafellsjökull (Jökulslóð)

Vegalengd: 1,8 km (3,7 km hringleið)
Göngutími: ½ klst. (1 - 1½ klst. hringleið)
Erfiðleikastuðull gönguleiðar:
 1 (auðveld)

Gönguleiðin að Skaftafellsjökli hefst austan við Skaftafellsstofu. Þaðan liggur malbikaður stígur eftir jökulaurunum neðan Skaftafellsheiðar langleiðina að jökli. Frá malbikaða stígnum liggur stikuð slóð að öldu framan við jökul þar sem sett hefur verið upp upplýsingaskilti sem varar við þeim hættum sem kunna að leynast við jökulinn.

Þegar gengið er til baka er farin sama leið að næstu öldu (jökulmörk 1980). Þar er þá hægt að velja stikaða slóð sem liggur í suðurátt og síðan vestur að Skaftafellsstofu og fara þannig hringleið um jökulaurana. Eins er mögulegt að fara aftur að sama stíg og komið var.

 

S2: Svartifoss - Sjónarsker - Sel

Vegalengd: 5,5 km hringleið*
Göngutími: 2 klst.
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 1 (auðveld)

Frá Skaftafellsstofu er gengið meðfram tjaldsvæði og beygt upp í hæðina þar sem heitir Austurbrekkur. Þaðan liggur leiðin áfram ofan Gömlutúna og farið er yfir Eystragil á göngubrú. Áfram er haldið framhjá Hundafossi og enn ofar er komið að Magnúsarfossi. Þaðan er haldið áfram upp uns komið er að hæð nokkurri sem af fæst gott útsýni til Svartafoss. Áfram er svo gengið niður í gilið þar til komið er að fossinum.

Frá Svartafossi er gengið yfir Stóralæk á göngubrú og upp úr Bæjargili að vestanverðu. Á gatnamótum er gengið til hægri upp að útsýnisskífu á Sjónarskeri.

Gengið er til baka að gatnamótum, en í stað þess að beygja að Svartafossi er haldið beina leið áfram. Þá er komið að gömlum veg sem liggur upp á heiðina og var áður nýttur vegna heyskapar. Veginum er fylgt niður að Seli.

Frá Seli er gengið eftir veginum til austurs þar til komið er að Bæjargili. Þar er tilvalið að skoða gömlu rafstöðina við Magnúsarfoss. Síðan er gengið eftir þröngum stíg niður í gegn hjá Lambhaga og þaðan heim að Skaftafellsstofu.

*Gönguleiðin að Svartafossi er 1,9 km og tekur um 35 - 45 mín. að ganga að fossinum.

 

S3: Skaftafellsheiði

Vegalengd: 16,7 km*
Göngutími: 5 - 6 klst.
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 2 (krefjandi)

Frá Skaftafellsstofu er gengið meðfram tjaldsvæði og beygt upp í hæðina þar sem heitir Austurbrekkur. Þaðan liggur leiðin áfram ofan Gömlutúna og farið er yfir Eystragil á göngubrú. Áfram er haldið framhjá Hundafossi og enn ofar er komið að Magnúsarfossi. Gengið er yfir á göngubrú fyrir ofan Magnúsarfoss og þaðan fylgt göngustíg að Sjónarskeri.

Frá Sjónarskeri er gengið áfram upp upp fyrir Skerhól og þaðan á Nyrðrihnauka og í Gimludal. Þar eru gatnamót við leiðina sem liggur á Kristínartinda. En í stað þess að beygja til vinstri er haldið áfram og gengið fyrir Kristínartinda þar til komið er að Glámu. Þaðan liggur leið að Sjónarnípu og um Austurbrekkur að Skaftafellsstofu.

Athugið að leiðin um Skaftafellsheiði er að öllu jöfnu ófær á vorin vegna aurbleytu. Þegar svo háttar til er henni lokað og getur lokunin varað fram í seinni part júní.

*Tilvalið er að ganga rakleiðis að Svartafossi áður en gengið er að Sjónarskeri, en þá lengist leiðin um 250 metra.

 

S4: Kristínartindar

Vegalengd: 17,9 km
Göngutími: 6 - 8 klst.
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 3 (erfið)

Frá Skaftafellsstofu er gengið meðfram tjaldsvæði og beygt upp í hæðina þar sem heitir Austurbrekkur. Þaðan liggur leiðin áfram ofan Gömlutúna og farið er yfir Eystragil á göngubrú. Áfram er haldið framhjá Hundafossi og enn ofar er komið að Magnúsarfossi. Gengið er yfir á göngubrú fyrir ofan Magnúsarfoss og þaðan fylgt göngustíg að Sjónarskeri.

Frá Sjónarskeri er gengið áfram upp upp fyrir Skerhól og þaðan á Nyrðrihnauka og í Gimludal. Þar er beygt til vinstri á gatnamótum og gengið upp brattan sneiðing sem liggur þvert um skriðu þar til komið er í skarð á milli tindanna. Þaðan er svo stutt en mjög brött skriða sem þar að klöngrast upp til að ná toppnum.

Af toppnum er sama leið farin til baka í skarðið og svo áfram í fjallshlíðinni vestanverðri þar til komið er að Glámu. Þaðan liggur leið að Sjónarnípu og um Austurbrekkur að Skaftafellsstofu.

Athugið að leiðin um Skaftafellsheiði er að öllu jöfnu ófær á vorin vegna aurbleytu. Þegar svo háttar til er henni lokað (og þar af leiðandi leiðinni á Kristínartinda líka) og getur lokunin varað fram í seinni part júní.

 

S5: Sjónarnípa

Vegalengd: 6,4 km (hringleið)
Göngutími: 2 - 2½ klst.
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 2 (krefjandi)

Frá Skaftafellsstofu er gengið meðfram tjaldsvæði og beygt upp í hæðina við gatnamót undir Austurbrekkum. Þaðan er gengið skáhallt áfram upp Austurbrekkur þar til komið er að Sjónarnípu. Hækkun er tiltölulega jöfn á þessari leið.

Tilvalið er að ganga til baka um Austurheiði og má þá jafnvel hafa viðkomu við Svartafoss. Eins má sérstaklega mæla með því að ganga þann hring réttsælis, þ.e. í stað þess að fara stystu leið að Sjónarnípu er gengið langleiðina að Svartafossi og síðan um Austurheiði að Sjónarnípu. Helstu kostir þessarar leiðar eru glæsilegt útsýni til Kristínartinda, Hrútfjallstinda og Öræfajökuls og eftir því sem nær dregur opnast Skaftafellsjökull fyrir göngumanni. Til baka er gengið um Austurbrekkur að tjaldsvæði. Heildarlengd þessa hrings er 6,9 km.

 

S6: Svartifoss - Sjónarnípa

Vegalengd: 7,4 km (hringleið)
Göngutími: 2½ - 3 klst.
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 2 (krefjandi)

Frá Skaftafellsstofu er gengið meðfram tjaldsvæði og beygt upp í hæðina við gatnamót undir Austurbrekkum. Þaðan er gengið skáhallt áfram upp Austurbrekkur þar til komið er að Sjónarnípu. Hækkun er tiltölulega jöfn á þessari leið.

Tilvalið er að ganga til baka um Austurheiði og má þá jafnvel hafa viðkomu við Svartafoss. Eins má sérstaklega mæla með því að ganga þann hring réttsælis, þ.e. í stað þess að fara stystu leið að Sjónarnípu er gengið langleiðina að Svartafossi og síðan um Austurheiði að Sjónarnípu. Helstu kostir þessarar leiðar eru glæsilegt útsýni til Kristínartinda, Hrútfjallstinda og Öræfajökuls og eftir því sem nær dregur opnast Skaftafellsjökull fyrir göngumanni. Til baka er gengið um Austurbrekkur að tjaldsvæði. Heildarlengd þessa hrings er 6,9 km.

 

M1: Bæjarstaðarskógur

Vegalengd: 15,8 km
Göngutími: 4-5 klst.
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 2 (krefjandi)

Frá Skaftafellsstofu er gengið meðfram tjaldsvæði áfram vestur undir heiðinni þar til komið er að Eystragili. Farið er yfir lækinn á göngubrú og áfram yfir Stóralæk á tveimur göngubrúm. Strax eftir síðari brúna er beygt upp í hæðina hjá Lambhaga. Frá Lambhaga er gengið upp brekkuna vestan Bæjargils að Magnúsarfossi og áfram upp að vestanverðu þar til komið er á Vesturheiði. Áfram er gengið um Snið að Grjóthól og þaðan þvert yfir dalinn í Bæjarstaðarskóg.

Úr Bæjarstaðarskóg er gengið framhjá Réttargili og Vestragili að rótum Jökulfells, og þaðan skáhallt yfir sandinn að göngubrú á Morsá við Götugil. Leiðin þar þvert yfir er óstikuð en taka skal stefnuna á fremsta hluta Skaftafellsheiðar og rata menn þá beint á brúna við Hrafnagil. Áfram er svo gengið eftir stikaðri slóð að Skaftafellsstofu.

 

M2: Morsárjökull

Vegalengd: 20,9 km hringleið
Göngutími: 6 - 7 klst.
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 2 (krefjandi)

Frá Skaftafellsstofu er gengið meðfram tjaldsvæði áfram vestur undir heiðinni þar til komið er að Eystragili. Farið er yfir lækinn á göngubrú og áfram yfir Stóralæk á tveimur göngubrúm. Strax eftir síðari brúna er beygt upp í hæðina hjá Lambhaga. Frá Lambhaga er gengið upp brekkuna vestan Bæjargils að Magnúsarfossi og áfram upp að vestanverðu þar til komið er á Vesturheiði. Áfram er gengið um Snið að Grjóthól og þaðan sem leið liggur inn að Morsárjökli.

Þegar farið er til baka er auðveldast að ganga sömu leið til baka að Grjóthól. Þaðan yfir Morsá á göngubrú og til suðurs að göngubrú við Götugil. Þaðan er gengið eftir stikaðri slóð að Skaftafellsstofu.

 

M3: Kjós

Vegalengd: 29,8 km fram og til baka*
Göngutími: 8 - 10 klst.
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 2 (krefjandi)

Frá Skaftafellsstofu er gengið meðfram tjaldsvæði áfram vestur undir heiðinni þar til komið er að Eystragili. Farið er yfir lækinn á göngubrú og áfram yfir Stóralæk á tveimur göngubrúm. Strax eftir síðari brúna er beygt upp í hæðina hjá Lambhaga. Frá Lambhaga er gengið upp brekkuna vestan Bæjargils að Magnúsarfossi og áfram upp að vestanverðu þar til komið er á Vesturheiði. Áfram er gengið um Snið að Grjóthól og þaðan þvert yfir dalinn í Bæjarstaðarskóg. Úr Bæjarstaðarskóg er gengið til norðurs eftir þornuðum áreyrum meðfram Kjósarlæk þar til komið er í Kjós. Vert er að hafa í huga að frá Bæjarstaðarskógi í Kjós er hvorki stikuð né greinileg gönguleið. Því þarf göngufólk að velja sér sjálft leið yfir áraurana.

Sama leið er gengin til baka áleiðis að Grjóthól en í stað þess að fara yfir brúna þar er gengið áfram suður að göngubrú við Götugil. Þaðan er gengið eftir stikaðri slóð að Skaftafellsstofu.

*Uppgefin gönguvegalengd miðast við að farið sé í miðja Kjós og tilbaka.