Askja

Frá bílastæði í Vikraborgum er um 35 mínútna ganga inn að Öskjuvatni. Gönguleiðin er stikuð og auðveld yfirferðar.

Frá skálum við Drekagil er unnt að ganga vestur yfir Dyngjufjöllin að Víti. Sú ganga tekur um 2-3 klst. aðra leiðina. Varast ber að leggja á fjöllin nema veðurútlit sé mjög gott því að skjótt skipast veður í lofti. Ef ganga á umhverfis Öskjuvatn þá verður að hafa í huga að hringferðin tekur um 8-12 klst. Ganga verður uppi á eggjum Þorvaldstinds sunnan vatnsins, en ekki er mögulegt að ganga við vatnsborðið sökum nær stöðugs grjóthruns úr hlíðum fjallsins. Laus gosefni, aðallega vikur, eru víða í skorningum og sneiðingum á gönguleiðinni uppi á Þorvaldstind sem gerir hana seinfarna og þunga til göngu.

Ef ganga á að Bræðrafelli frá Drekagili þarf að ætla sér 7-9 klst. Leiðin er stikuð og byrjar hún nokkru suðaustan við jaðar Vikrahrauns en það er ófært yfirferðar.

Frá bílastæði við Vikraborgir liggur stikuð leið þvert um Öskjuop þar sem það er þrengst, vestur um Jónsskarð í skála Ferðafélags Akureyrar í Dyngjufjalladal. Gangan þangað tekur 9-11 klst. Varist einnig að leggja í þá göngu nema veðurútlit teljist gott.