Blágil og Hrossatungur
Rúmlega 10 km sunnan við Laka er tjaldsvæði og skáli í Blágiljum og sér Skaftárstofa um bókanir í skálann (klaustur hjá vjp.is). Húsið rúmar 16 manns í kojum í einu rými með eldunaraðstöðu. Innangengt er á vatnssalerni og hægt að komast í heita sturtu. Aðeins er boðið upp á svefnpokapláss.
Í Hrossatungum er einnig skáli en þar er hvorki vatnssalerni né sturtuaðstaða. Þar er hins vegar hestagerði og hægt að kaupa hey.
Nánari upplýsingar má fá í Skaftárstofu 4874620 eða í netfanginu klaustur hjá vjp.is.
Upplýsingar um verð í skálagistingu þjóðgarðsins eru hér.
Hólaskjól, Langisjór, Skælingar og Sveinstindur
Næsti skáli og tjaldsvæði frá Eldgjá er við Hólaskjól og er það rekið er af Veiðifélagi Skaftártungumanna (holaskjol hjá holaskjol.com), þar er bæði hægt að gista í almenningi og í minni húsum. Í húsunum er rafmagn, vatnssalerni og heit sturta en hvorki veitingasala né önnur matvöruverslun.
Við suðurenda Langasjávar er lítið tjaldsvæði á vikri, stutt er í vatnssalerni og rennandi vatn er á svæðinu. Nánari upplýsingar eru hjá landvörðum á svæðinu og hjá Skaftárstofu (klaustur hjá vjp.is).
Frá Sveinstindi að Hólaskjóli liggur vinsæl tveggja til þriggja daga gönguleið. Á henni eru tveir litlir gangnamannakofar sem gerðir hafa verið upp af Ferðafélaginu Útivist. Annar er neðan Sveinstinds við Skaftá - tjaldsvæðið sem áður var við skálann er nú komið á kaf í jökulleir og er gestum því bent á tjaldsvæði þjóðgarðsins við suðurenda Langasjávar. Hinn skálinn er við Skælinga og er þar einnig ágætis tjaldsvæði. Ferðafélagið Útivist sér um útleigu á þessum skálum (utivist hjá utivist.is)
Frekari upplýsingar um gistingu í V-Skaftafellssýslu má finna á www.klaustur.is