Númer á gönguleiðum eru í samræmi við númer á gönguleiðakorti. Athugið að á gatnamótum eru þessi númer ekki tiltekin á vegvísum.
H-1 Hringur í Hólmatungum
Vegalengd: 4,5 km (hringleið)
Göngutími: 1,5-2 klst
Upphaf: Bílastæði í Hólmatungum
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: Auðveld leið (blá)
Frá bílastæði er gengið niður í Hólmatungurnar þar til komið er að brú yfir lítinn læk. Þar er beygt í norður og gengið vestari leiðin í Hólmtungum meðfram Hólmá, lindá með ótal hólmum og hvannastóði við bakka, að Hólmárfossum. Á leiðinni til baka er austari leiðin gengin suður, meðfram Jökulsá og til baka á bílastæðið. Á þessum hring er hægt að bæta við viðkomu í Kötlum, sjá leið H-2
H-2 Katlar
Vegalengd: 2 km (fram og til baka)
Göngutími: 0,5-1 klst
Upphaf: Bílastæði í Hómlatungum
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: Krefjandi leið (rauð)
Frá bílastæðinu er farið niður í Hólmatungur, yfir göngubrú og áleiðis að Jökulsá þar til beygt er til hægri við gatnamót niður að Kötlum. Katlar heita þröngur farvegur Jökulsár. Þar geysist áin fram í ógurlegum iðuköstum og eins nafnið gefur til kynna þá er eins sjóði á mörgum kötlum í einu, svo mikill er hamagangurinn. Andstæðan við tærar og hófsamar bergvatnslindirnar og gróna bakka þeirra getur vart verið meiri. Sama leið er farin tilbaka.
H-3 Ytra-Þórunnarfjall
Vegalengd: 0,6 km (fram og til baka)
Göngutími: 0,5 klst
Upphaf: Bílastæði í Hólmatungum
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: Krefjandi leið (rauð)
Frá bílastæðinu í Hólmatungum er örstutt ganga í suður upp á dulitla hæð sem nefnist Ytra-Þórunnarfjall, eftir Þórunni ríku, prestfrú sem bjó í Ási á 15. öld. Ekki fer mikið fyrir hæðinni en útsýnið engu að síður stórkostlegt yfir Hólmatungurnar og suður yfir mikilfengleg Jökulsárgljúfrin. Sama leið er farin til baka.