Ásbyrgi

Númer á gönguleiðum eru í samræmi við númer á gönguleiðakorti. Athugið að á gatnamótum eru þessi númer ekki tiltekin á vegvísum. 

Á-1 Botnstjörn

Vegalengd: 1 km (hringleið) ásamt öðrum möguleikum
Göngutími: ½ -1klst
Upphaf: Bílastæði innst í Ásbyrgi
Erfiðleikastuðull gönguleiðar:  
Frá bílastæðinu að efri útsýnispalli yfir Botnstjörn - Græn leið.
Aðrar leiðir innst í Ásbyrgi eru flestar auðveldar - Blá leið.

Ásbyrgi heillar margan ferðalanginn. Innst í byrginu er gengið um gróskumikinn birkiskóg, umvafinn hamrabeltinu, og fyrir botni hvílir friðsæl tjörn sem er heimkynni rauðhöfðaanda á sumrin. Margir finna ákveðna helgi hvíla yfir staðnum og telja jafnvel að þar séu híbýli álfa og huldufólks.

Frá bílastæðinu liggja síðan nokkrar léttar og skemmtilegar gönguleiðir um innsta hluta Ásbyrgis. Leiðirnar eru flestar greiðfærar og á gatnamótum eru leiðbeinandi upplýsingar um það hvert skal halda. Til að fara niður að Botnstjörn er gengið niður steinþrep að palli sem er niður við tjörnina. Til að fá útsýni yfir Ásbyrgi er gengið upp steinþrep upp að svokallaðri Útsýnishæð, en þaðan er fallegt að horfa yfir Ásbyrgi.

Í skóginum er aðallega birki en þó má sjá reynivið, gulvíði, grávíði og loðvíði auk fjölmargra barrtrjáa sem voru gróðursett um miðja síðustu öld. 

             

Á-2 Eyjan

Vegalengd: 4,5 km (fram og til baka)
Göngutími: 1,5-2 klst
Upphaf: Bílastæði framan við stóra salernishúsið á tjaldsvæðinu í Ásbyrgi
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: Auðveld leið (blá)

Frá Eyjunni er afar fallegt útsýni yfir Ásbyrgi og ekki síður yfir sandana í norðri. Það er upplagt að ganga þessa leið að kvöldlagi. Leiðin hefst fyrir framan stóra salerninshúsið við bílastæðið á tjaldsvæðinu í Ásbyrgi. Leiðin liggur fyrst í norður og farið er upp á Eyjuna þar sem klettaveggurinn er hentugur til uppgöngu. Þar er lítill stigi sem auðveldar uppgönguna. Fljótlega er komið að gamalli vörðu og sé snúið við þar verður gönguleiðin um 2 km löng en sé haldið áfram liggur leiðin áfram í suður, alveg að Eyjunefinu. Hægt er að fara lítinn hring á bakaleiðinni frá Eyjunefninu en að mestu er leiðin sú sama til baka.

Á-3 Skógarstígur

Vegalengd:4 km (önnur leið)
Göngutími:1-2
 klst
Upphaf: Gljúfrastofa, Ásbyrgi
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: Auðveld leið (blá). Einnig er leyft að hjóla þessa leið.

Á göngu eftir skógarstígnum í Ásbyrgi má upplifa friðsæld og fjölbreytt fuglalíf skógarns. Stígurinn liggur frá Gljúfrastofu og undir austurvegg Ásbyrgis alveg inn að Botnstjörn innst í Ásbyrgi. Á árunum 1947-1977 var barrtrjám plantað í Ásbyrgi og liggur stígurinn um helstu skógræktarreitina frá þeim tíma. Einnig umvefur hinn náttúrulegi birkiskógur Ásbyrgis ferðafólk. Skógurinn í Jökulsárgljúfrum er mikilvægur til útivistar. Hann veitir mannfólki skjól, ánægju og upplifun.  Áður var skógurinn nýttur til húsagerðar, eldiviðar, kolagerðar og beitar.  Á leiðinni sjást gamlar kolagrafir. Hægt að gera hringleið úr þessari leið með því að fara leið Á-4, Undir Eyjunni, til baka.

Á-4 Undir Eyjunni

Vegalengd: 3,5 km (önnur leið)
Göngutími: 1-1,5
 klst
Upphaf: Tjaldsvæði í Ásbyrgi
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: Krefjandi leið (rauð).

Þessi leið hefst í suðvesturhorni tjaldsvæðisins og fyrst um sinn er gengið undir háum hamraveggjum Eyjunnar þar sem sjá má hin ýmsu form býkúpuveðrunar. Að auki má sjá hrafnslaupa í klettunum en svo kallast hreiður krumma. Þegar komið er fyrir Eyjuendann liggur leiðin aðeins til vesturs og gengið er milli þingeyskra stórþúfna og um mólendi þar sem fylgjast má með lífríkunu. Leiðinni lýkur á gamla íþróttavellinum í Ásbyrgi þar sem er kjörið að setjast niður og endurnýja orkubirgðirnar. Hægt er að gera hringleið úr þessari leið með því að fara leið Á-3, Skógarstíginn, til baka. 

Á-5 Áshöfðahringur – í kringum höfðann

Vegalengd: 7,5 km (hringleið)
Göngutími: 2-3
 klst
Upphaf: Gljúfrastofa, Ásbyrgi
Erfiðleikastuðull gönguleiðar:Krefjandi leið (rauð).

Áshöfðinn er skógiklæddur höfði austan við Ásbyrgi. Gönguleiðin býður upp á fjölbreytta náttúruupplifun. Fuglalíf er fjölbreytt í vötnum, votlendi, mó og kjarri og gengið er um fjölbreytt landslagi, um gil og gljúfur, framhjá tjörnum og jökulám. Gönguleiðin hefst við Gljúfrastofu í Ásbyrgi. Þaðan er farið í austur yfir golfvöllinn, yfir heimreið og að Ástjörn. Á tjörninni er mikið fuglalíf og flórgoðinn verpir þar hvert sumar. Frá Ástjörn er farið framhjá sumarbúðunum og austur fyrir Áshöfðann og gengið í suður, upp með klöppum og gildrögum og framhjá tjörnum. Þar sem stígurinn sveigir í vestur er gott útsýni yfir nyrsta hluta Jökulsárgljúfra. Frá Gilsbakka er farið í norðurátt, að Ási. Stuttu eftir Gilsbakka er hægt að velja um tvær leiðir, álika langar, til baka í Gljúfrastofu. Austari leiðin liggur meðfram Ásgili og Ási. Vestari leiðin liggur að Tófugjá og fylgir síðan barminum norður þar til komið er að gatnamótum við austurenda golfvallarins þaðan sem stutt er í Gljúfrastofu.

Á-6 Áshöfðahringur – yfir höfðann

Vegalengd: 7 km (hringleið)
Göngutími:  2-3
 klst
Upphaf: Gljúfrastofa, Ásbyrgi
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: Krefjandi leið (rauð).

Þessi gönguleið samsvarar leið Á-5 að mestu leyti. Byrjað er á sama stað, gengið að Ástjörn, framhjá sumarbúðum og austur fyrir Áshöfðann. En stuttu áður en komið er að útsýnisstað við Jökulsá er beygt við gatnamót til vesturs og farinn leið sem liggur yfir Áshöfðann. Frá vesturbrún höfðans er fallegt útsýni yfir Ás og Ásbyrgi og norður á sandana sem Jökulsáin hefur mótað, óbeisluð á fyrri öldum en heft með varnargörðum í dag. Þegar yfir höfðann er komið liggur leiðin til baka sömu leið og komið var, fram hjá sumarbúðum og Ástjörn.

Á-7 Klappir

Vegalengd: 9 km (fram og til baka)
Göngutími: 2,5-3 
 klst
Upphaf: Gljúfrastofa, Ásbyrgi
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: Krefjandi leið (rauð).

Upphaf þessarar gönguleiðar er hið sama og leið Á-8 og er því vísað til leiðarlýsingar þar. Hér er hins vegar snúið við á Klöppum og sama leið gengin til baka. Leiðin býður upp á stórkoslegt útsýni yfir Ásbyrgi og stórbrotna skessukatla í Klöppum.

  

Á-8 Kúahvammshringur

Vegalengd: 12  km (hringleið)
Göngutími: 4-5 
 klst
Upphaf: Gljúfrastofa, Ásbyrgi
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: Krefjandi leið (rauð).

Þessi gönguleið býður upp á stórfenglegt útsýni yfir Ásbyrgi og nyrðri hluta Jökulsárgljúfra. Gönguleiðin hefst við Gljúfrastofu í Ásbyrgi. Hægt er að fara tvær leiðir til að komast upp á barm Ásbyrgis. Auðveldari leiðin er að fara austur yfir golfvöllinn og beygja til suðurs á gatnamótum austan golfvallar, þaðan liggur leiðin upp á barminn þar sem hann er lægstur. Erfiðari leið er að fara beint í suður frá Gljúfrastofu að gatnamótum við Tófugjá, þar sem beygt er til austurs og klifrað upp vegginn með því að styðja sig við kaðal. Síðan er gengið eftir austurbarmi Ásbyrgis suður að Klöppum, sunnan Ásbyrgis. Í Klöppum eru einstakir skessukatlar og þar er frábært útsýni yfir Ásbyrgi. Frá Klöppum er gengið austur yfir heiðina að Jökuslá, að Kúahvammi, þaðan meðfram gljúfrunum norður að Gilsbakka og framhjá Ási þar til komið er að upphafsstað. Hægt er að stytta leiðina í ~ 9 km með því að fara tilbaka sömu leið frá Klöppum.

Á-9 Kvíahringur

Vegalengd: 17  km (hringleið)
Göngutími: 6-7 
 klst
Upphaf: Gljúfrastofa, Ásbyrgi
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: Krefjandi leið (rauð).

Hér gefst færi á heilsdagsgöngu um fjölbreytt landslag Ásbyrgis og Ásheiðar þar sem upplifa má stórkostlegt útsýni og sjá einstakar minjar um hamfarahlaup Jökulsár. Upphaf leiðarinnar er hið sama og á leið Á-8. Þegar komið er í Klappir er hins vegar ekki farið í austur, heldur haldið áfram í suður, að gatnamótum í Kvíum. Þar eru byrgin af ýmsum stærðum skýr ummerki hamfarahlaupa Jökulsár. Frá gatnamótum er farið til baka austari leiðina sem liggur meðfram Jökulsánni, framhjá undraheimi tjarna og klappa í Laxavogi þar til komið er að gatnamótum í Kúahvammi. Þaðan er haldið áfram í norður, sömu leið og á leið Á-8.