Vatnajökull

Vatnajökull er miðkjarni Vatnajökulsþjóðgarðs og þekur um einn tólfta hluta Íslands. Vatnajökull er mesti jökull Evrópu, um 8.100 km2 að flatarmáli og víðast um 400–600 m þykkur en mest um 950 m. Að vestan, norðan og austan fellur hann fram á hásléttu í 700-900 m hæð en að sunnan ná sporðar niður á láglendi. Framan við jökulinn eru sandar sem vitna um rofmátt jökulsins og framburð jökulfljótanna. Stærstu skriðjöklarnir eru Síðujökull, Tungnaárjökull og Köldukvíslarjökull að vestan, Dyngjujökull og Brúarjökull að norðan en Breiðamerkurjökull og Skeiðarárjökull að sunnan. Allir hafa þessir meginjöklar hlaupið fram á nokkurra áratuga fresti. Nokkur jökulsker ná upp úr jökulbreiðunni. Stærst þeirra er Esjufjöll í Breiðamerkurjökli þar sem einangruð gróðursamfélög hafa þróast án áhrifa manna og búfjár. Frá Vatnajökli renna nokkrar stærstu jökulár landsins: Tungnaá og Köldukvísl vestur í Þjórsá, Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum til norðurs, Jökulsá á Brú og Jökulsá í Fljótsdal til norðausturs og Jökulsá í Lóni, Hornafjarðarfljót, Jökulsá á Breiðamerkursandi, Skeiðará, Núpsvötn, Hverfisfljót og Skaftá til suðurs. Áhrifa jökulsins gætir því til sjávar að ósum helstu vatnsfalla, frá Þjórsá austur og norður að Skjálfandafljóti. Á vestur- og norðvesturhluta Vatnajökuls fer jökulbráð niður um hriplekan botn og berst fram sem grunnvatn en getur birst sem lindavatn, allfjarri jöklinum. Ef frá er talinn Mýrdalsjökull er úrkoma hvergi meiri á Íslandi en á sunnanverðum Vatnajökli né afrennsli örara til sjávar. En slíkur vatnsforði er bundinn í Vatnajökli að það tæki vatnsmestu á Íslands, Ölfusá, rúm 200 ár að bera hann fram. Víða stífla jökulsporðar afrennsli svo að vatn safnast í jaðarlón sem tæmast í jökulhlaupum; þekktust eru Grænalón við Skeiðarárjökul og Vatnsdalslón við Heinabergsjökul. Undir jöklinum eru jarðhitasvæði og mörg virk eldfjöll og við gos hafa fallið frá þeim jökulhlaup sem ógnað hafa gróðri og byggð allt til strandar. Í Grímsvatnaöskjunni og undir Skaftárkötlum safnast bræðsluvatn í lón undir jökli og hleypur á nokkurra ára fresti fram í jökulhlaupum. Löngu fyrir landnám runnu hamfarahlaup til norðurs frá Vatnajökli og grófu Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi.

Undir Vatnajökli leynast fjöll, dalir og hásléttur, virkar megineldstöðvar með öskjum, stapar móbergshryggir og trog. Lægst nær jökulbotn 300 m niður fyrir sjávarmál en hæst 2000 m yfir sjó. Svo lágt er landið undir jöklinum að hyrfi hann alveg gætu aðeins myndast um fimm smájöklar á hæstu fjallatindum við núverandi loftslag. En jökulbreiðan er að meðaltali um 380 m þykk og rís svo hátt að safnsvæði eru enn nægilega stór til þess að halda jöklinum við; hann lifir á eigin hæð. Jökulhvelið varð hins vegar til við kaldara loftslag en nú er; það er þó ekki leifar af jökulbreiðu síðasta jökulskeiðs, heldur orðið til á kuldatíð fyrir 3-5 þúsund árum en náði mestri stærð undir lok 19. aldar.

Vatnajökull er þíðjökull, ísinn við frostmark, hvergi frosinn fastur við botn, ólíkt gaddjöklum heimskautasvæðanna. Hann bregst hratt við loftslagsbreytingum. Talið er að við landnám hafi sporðar hans náð 10-15 km styttra fram en við lok litlu ísaldar um aldamótin 1900. Jökullinn hopaði hægt á fyrstu tveimur áratugum 20. aldar en hratt eftir það þar til loftslag kólnaði um miðjan sjöunda áratuginn. Í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar hlýnaði á ný og síðan hefur jökullinn rýrnað hratt. Landslag hefur því breyst við jaðarinn, gróður numið land, ný jökulsker risið upp úr ís og búsvæði lífvera orðið til. Lón hafa komið í ljós við sporðana. Þekktast er Jökulsárlón á Breiðamerkursandi sem tók að myndast á hlýskeiði 20. aldar þegar sporður Breiðamerkurjökuls hopaði úr djúpu fleti sem hann hafði grafið við framrás á kuldaskeiði frá 13. öld til loka 19. aldar. Aur undan Breiðamerkurjökli sest í lónið og aðeins lítill hluti þess berst með Jökulsá til strandar. Framburður undan jöklinum hefur því ekki náði að bæta upp landbrot hafs svo að strandlínan hefur hörfað.

Við hlýnandi loftslag næstliðin 15 ár hefur Vatnajökull misst um 1 m af þykkt sinni á hverju ári, metið jafndreift yfir heildarflöt hans; hjarnmörk hafa risið 200-400 m og safnsvæði skriðjöklanna er nú aðeins helmingur þess sem þarf til þess að þeir haldist við óbreyttir. Jökullinn hefur rýrnað hratt og hlýni enn eins og líklegt þykir, gæti hann hafa misst fjórðung af rúmmáli sínu um miðja öldina - og hann horfið að mestu fyrir lok næstu aldar; þá verði eingöngu smájöklar eftir á hæstu fjallatindum. Afrennsli frá jöklinum næði hámarki eftir miðja öldina en yrði eftir um hundrað ár jafnt því sem nú er; minnkaði síðan hratt. Fram undan yrðu hröðustu breytingar á umhverfi sem orðið hafa frá því að land byggðist. Ár hyrfu, farvegir færðust til, vötn kæmu í ljós þar sem sporðar hafa áður grafið bæli. Áhrifa jöklabreytinganna mun gæta á vatna- og gróðurfar, landnýtingu, samgöngur, vatnsaflsvirkjanir, landris og jafnvel eldvirkni. Þegar jöklarnir væru horfnir yrði afrennsli til ánna jafnt úrkomu á landið.