Rannsóknir

Í gosbeltinu við Vatnajökul eru góðar og um margt einstæðar aðstæður til rannsókna á hraunum, gígum, móbergshryggjum, bólstrabergsbreiðum og stöpum. Öskjuvatn er ein yngsta askja í heiminum (mynduð eftir gosið 1875) og í Grímsvötnum eru einstæð tækifæri til rannsókna á átökum elds og íss. Jarðhitasvæðin í Grímsvötnum, Kverkfjöllum og Skaftárkötlum þykja merkileg til skilnings á eðli jarðhita og undarlegu lífríki í lónum undir jökli. Rannsóknir á söndunum við jaðra Vatnajökuls varpa ljósi á myndun slíkra sanda á jökulskeiðum annars staðar í veröldinni. Með hörfun jökulsins kemur nýtt land í ljós. Í þjóðgarðinum gefst nú einstætt tækifæri til að rannsaka landnám gróðurs og dýra á jökulskerjum og svæðum sem eru að koma undan jökli. Jafnframt þarf að rannsaka áhrif loftslagsbreytinga á lífríkið.

Vatnajökull mælir hnattrænar loftslagsbreytingar í miðju Norður-Atlantshafi. Með rannsóknum á jöklinum og umhverfi hans, gosmenjum, jökulurðum og setlögum, má lesa loftslagssögu síðasta jökulskeiðs, nútíma og frá landnámi Íslands. Innan Vatnajökulsþjóðgarðs mun náttúra njóta þeirrar verndar að geta um ókomna tíð lýst umhverfi, sem menn hafa ekki raskað. En framlag Vatnajökuls er meira. Rannsóknir á sjálfum jöklinum eru lykill að þekkingu á eðli jökla sem þarf til skilnings á jöklum fyrri tíðar - en einnig jöklum framtíðar. Í jarðvísindum er nútíð lykill að fortíð og framtíð. Þess vegna fara fram umfangsmiklar rannsóknir á afkomu Vatnajökuls og tengslum við veðurfar, hreyfingu hans, rennsli vatns um hann, framhlaup skriðjökla, jökulhlaup og afrennsli til jökulfljóta. Markmið rannsóknanna er að geta metið breytingar á jöklum og afrennsli frá þeim að gefnum spám um líklegar loftslagbreytingar á komandi árum. Athuganir á kelfingu Breiðamerkurjökuls í Jökulsárlón skýra ferli sem stöðugt gætir meir í skriðjöklum frá Grænlandi og Suðurskautslandinu. Vatnajökull lýsir eiginleikum sem verða æ meir einkenni gaddjökla á Grænlandi og Suðurskautslandinu við hlýnandi veðráttu. Hvergi er auðveldara að sannprófa niðurstöður fjarkönnunar við þróun mælitækni úr gervitunglum heldur en með samanburði við mælingar á Vatnajökli. Síðan verður hinum nýju aðferðum beitt á torsóttari jöklasvæði heims.