Beint í efni

Yfir 400 þúsund gestir við Dettifoss í fyrra

Starfsmenn Háskóla Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs hafa um árabil sinnt mælingum á helstu áfangastöðum innan þjóðgarðsins. Frumniðurstöður fyrir árið 2017 liggja nú fyrir og sýna þær enn og aftur mikla fjölgun ferðamanna við Dettifoss.

18. janúar 2018

Starfsmenn Háskóla Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs hafa um árabil sinnt mælingum á helstu áfangastöðum innan þjóðgarðsins. Frumniðurstöður fyrir árið 2017 liggja nú fyrir og sýna þær enn og aftur mikla fjölgun ferðamanna við Dettifoss. Árið 2017 var heildartala þeirra 414.609, samanborið við 339.431 árið á undan. Nemur aukningin 22,1 prósenti. Tölunni frá 2016 þarf þó að taka með smá fyrirvara þar sem teljaragögn vantaði fyrir nokkurra vikna tímabil og var fjöldi gesta á þeim tíma því áætlaður.

Í júlí og ágúst koma á degi hverjum að jafnaði um tvö þúsund manns vestanvert að Dettifossi og um eitt þúsund manns austanvert. Samtals eru þetta þrjú þúsund manns og eru innviðir beggja vegna, s.s. bílastæði og salerni, alveg komnir að þolmörkum. Reyndar verður salernisaðstaðan að vestanverðu að teljast með öllu óboðleg en vonir standa til að framkvæmdir við nýtt þjónustuhús fari af stað á þessu ári og hægt verði að taka það í gagnið fyrir sumarið 2019.

Þrátt fyrir þessa miklu fjölgun ferðamanna hefur að einhverju leyti tekist að fyrirbyggja skemmdir á náttúruminjum og gróðurþekju, þökk sé smíði nýrra göngu- og útsýnispalla, starfi sjálfboðaliða og síðast en ekki síst virkri landvörslu. Má jafnvel sjá framfarir í gróðri á nokkrum stöðum, en betur má ef duga skal, t.a.m. í Fosshvammi þar sem ferðamenn eru gjarnir á að hunsa afmarkanir og merkingar.

Landvarslan á einnig stóran þátt í því að ekkert alvarlegt slys hefur orðið við fossinn síðustu ár, en með stígum og kaðalgirðingum hefur að mestu tekist að halda ferðamönnum frá hættulegustu stöðunum við fossinn. Eins hafa landverðir verið iðnir við að merkja leiðir með stikum að vetrarlagi þegar allir stígar eru undir snjó og þannig stýra ferðamönnum frá gljúfurbrúninni og hættulegum snjóhengjum við hana. Þarf enginn að velkjast í vafa um að landvarsla er ekki eingöngu mikilvæg vegna náttúruverndar heldur einnig sem öryggismál.