Vatnajökulsþjóðgarður heyrir nú undir Náttúruverndarstofnun. Heimasíða stofnunarinnar er í vinnslu. Lesa meira

Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Vorferð Jöklarannsóknafélags Íslands 2025

Vorferð Jöklarannsóknafélags Íslands upp á Vatnajökul var farin 29. maí til 5. júní.

1. júlí 2025
Hluti af hópnum heimsótti Pálsfjall í ferðinni. Mynd: Andri Gunnarsson

Vorferð Jöklarannsóknafélagsins hefur verið farin árlega síðan 1953. Ferðirnar sköpuðu vettvang fyrir jöklarannsóknir á þeim tíma þegar rannsóknastofnanir voru varla til og styrkir til mælinga engir. Vorferðirnar hafa í gegnum tíðina leitt til þess að mörg rannsóknarverkefni hafa orðið að veruleika og gefið fjölda fólks tækifæri til að komast upp á jökul og komast á staði sem fáir heimsækja alla jafna og fá innsýn inn í þau vísinda- og vöktunarverkefni sem unnið er að. Í nýafstaðinni ferð var unnið að verkefnum félagsins, Jarðvísindastofnunar og Veðurstofu Íslands auk verkefna annars vísindafólks. Talsverð vinna fer fram við að sinna viðhaldi á mælitækjum sem staðsett eru víðsvegar um jökulinn, meðal annars veðurstöðvum, jarðskjálftamælistöðvum og GPS stöðvum sem eru reknar af Jarðvísindastofnun Íslands, Veðurstofunni og Landsvirkjun. Vöktun eldstöðva og jökullóna, mælingar á afkomu jökulsins og breytingum jökulsporða, kortlagning á landslaginu undir jöklinum eru meðal þeirra verkefna sem hafa mikla þýðingu fyrir innviði sem og almenning og íbúa í sveitarfélögunum kringum jökulinn. Rannsóknir á Vatnajökli eru nauðsynlegar fyrir vísindasamfélagið og mikilvægar fyrir starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs.

Viðhaldi á mælitækijum Veðurstofu Íslands á Kistu. Mynd: Hrafnhildur Hannesdóttir

Í ferðinni var unnið að hefðbundnum verkefnum eins og afkomuborun í Grímsvötnum, ísjármælingum við útfall Grímsvatna og austur að Brúarjökli ásamt viðhaldi á mælitækjum. Gasmælingar voru gerðar í katli á Bárðarbungu, á Saltaranum og í Kverkfjöllum. Tilraunir voru gerðar til að nota dróna til gasmælinga þar sem aðgengi að sumum stöðum er orðið mjög krefjandi. Eftir nokkrar tilraunir tókst vel til og ljóst að þessi aðferð mun bæði spara tíma og auka öryggi. Önnur verkefni í ár voru þyngdarmælingar á Bárðarbungu, hljóðupptökur á hinum ýmsu hljóðum sem leynast í jöklinum, endurgerð á sögulegum ljósmyndum og drónamyndatökur fyrir sýndarveruleika. Steinasýni voru tekin víðsvegar um jökulinn til að rannsaka þróun á eldstöðvum undir Vatnajökli.

Gasmælingar í katli í sunnanverðri Bárðarbungu. Mynd: Nína Aradóttir

Í vorferðum er ýmsum viðhaldsverkefnum í skála Jöklarannsóknafélagsins á Grímsfjalli sinnt, þar sem hópurinn gistir. Viðhaldi var einnig sinnt á skála félagsins í Kverkfjöllum og nýr kamar var settur upp vestan við skálann. Verkefnið gekk vel en tók þó nokkurn tíma. Ekki er öllum verkþáttum lokið til að nota kamarinn en það stendur til bóta. Auk þess er stefnt að því að setja upp kamínu í skálanum svo vistlegra verði að eyða góðum dögum þar.

Nýr kamar var settur upp við skála félagins í Kverkfjöllum. Mynd: Nína Aradóttir

Veður var ekki með besta móti síðustu þrjá dagana og hafði Veðurstofan gefið út gular og appelsínugular veðurviðvaranir á stórum hluta landsins. Því var að mestu haldið til upp á Grímsfjalli og inn í skálanum þessa daga þangað til metið var að öruggt að halda niður af jöklinum.

Varla var stætt á milli skála í óveðrinu en það þurfti þó að laga hlera á skálanum sem hafði fokið upp. Mynd: Nína Aradóttir

Eitt af markmiðum þjóðgarðsins er að stuðla að rannsóknum og sinna fræðslu. Til þess að þjóðgarðurinn geti sinnt fræðslu um jökulinn og nærliggjandi svæði er mikilvægt að viðhafa öflugt samtal við rannsóknahópa. Nánar má fræðast um vorferðina og starfsemi Jöklarannsóknafélagsins á heimasíðu félagsins: www.jorfi.is