Beint í efni

Vorar í Vatnajökulsþjóðgarði

Í Skaftafell flykkjast nú fljúgandi gestir, eða öllu heldur heimamenn, sem komnir eru úr vetrarfríi sunnar í álfunni, margir hverjir frá Bretlandseyjum

30. apríl 2021

Skaftafell

Í Skaftafell flykkjast nú fljúgandi gestir, eða öllu heldur heimamenn, sem komnir eru úr vetrarfríi sunnar í álfunni, margir hverjir frá Bretlandseyjum. Farfuglarnir eru komnir. Sést hefur til skógarþrasta, grágæsa, hrossagauka, einnar maríuerlu, stokkanda og urtanda. Að frátalinni þessari fiðruðu umferð hefur verið rólegt á Suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs í vetur eins og víða annarsstaðar. Í Skaftafell komu að meðaltali um 16 bílar á dag í janúar og febrúar eða 56 gestir á dag séu áætlaðir 3,5 farþegar á hvern bíl. Skaftafellsstofa hefur verið opin og þangað inn hafa komið að meðaltali sex til sjö gestir á dag frá áramótum. Til samanburðar komu í Skaftafell um 254 bílar á dag eða tæpir 900 gestir í janúar og febrúar árið 2019.

Þessi óvenju rólega tíð nýtist vel til ýmissa verka en framkvæmdir við nýtt fráveitukerfi í Skaftafelli eru hafnar og uppsetning fræðslutorgs við gestastofuna þar komin vel á veg. Landverðir sinna venjubundnu eftirliti með stígum og áningarstöðum og nýta umfram tíma í vorhreingerningar og til að undirbúa áframhaldandi viðhald göngustíga í Skaftafelli frá síðasta sumri. Landslagsarkitektinn Gunnar Óli Guðjónsson mun koma í Skaftafell og halda námskeið fyrir landverði í viðhaldi stíga í lok apríl.

Eins og venja er á vorin er nú göngustígur um efri hluta Skaftafellsheiðar frá Sjónarnípu að Sjónarskeri um Kristínartinda lokaður til verndunar stígsins. Aðrir stígar eru opnir og starfsfólk þjóðgarðsins býður alla velkomna að ganga um svæðið og njóta iðandi fuglalífsins sem komið er yfir hafið.

Jökulsárlón

Vorsins verður einnig vart á Breiðamerkursandi en í lok mars sást til skúma sem snúið höfðu aftur eftir vetrardvöl á Norður-Atlantshafi. Nokkru seinna kom kjóinn en hann hefur um lengri veg að fara þar sem hann hefur vetrarsetu á Suður-Atlantshafi, sunnan miðbaugs. Gott var að sjá þessa tignarlegu íbúa jökulsandanna aftur.

Af annarri umferð er það að segja að í janúar og febrúar komu að meðaltali tæplega 30 bílar á dag á Jökulsárlón, eða um 100 gestir á dag sé sama aðferð notuð og hér að ofan. Árið 2019 voru bílarnir 416 á dag á sama tíma og um 1.456 gestir sem sóttu Jökulsárlón daglega heim.

Landverðir á Breiðamerkursandi hafa í vetur og vor m.a. unnið að því að afmarka aðalbílastæðið við Jökulsárlón með rekaviðardrumbum úr fjörunni. Þeir leysa af hólmi appelsínugular umferðarkeilur sem þar hafa verið.

Starfsmenn Suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs óska landsmönnum öllum gleðilegs sumars!

Grein þessi birtist upphaflega í Eystrahorni, héraðsriti Austur-Skaftafellssýslu, 29. apríl 2021.