Beint í efni

Vor við Snæfell

Heiðblár himinn, glampandi sól, snæviþakin heiði, fossandi lækir í upphafi leysinga. Oddaflug gæsa, tilhugalíf álfta og vorsöngur heiðlóu.

12. maí 2022

Gönguskíðafólk með fjallaskíði á púlkum á leið í Snæfellsskála. Skíðabrekkan góða í NA-hlíð Snæfells blasir við. Mynd: Millu og Krillu ferðir.

Þessi upptalning hér að ofan er tilraun til að lýsa upplifun þeirra fjölmörgu ferðalanga sem lögðu leið sína á Snæfell og svæðið þar um kring þetta vorið. Það viðraði vel til útivistar og á einum og sama deginum í lok apríl bárust fréttir af sólbökuðum gönguskíðahóp, orkumiklum fjallaskíðahóp og kátu vélsleða - og jeppafólki á svæðinu.

Snæfellsskáli er við rætur Snæfells og þar er gistirými fyrir 45 manns. Það sem af er þessu ári hafa verið skráðar 86 gistinætur í Snæfellsskála og hafa þær ekki verið fleiri undanfarin ár.

Vert er að benda á að aðstæður á svæðinu eru síbreytilegar og fylgjast þarf vel með veðurspá og snjóalögum áður en lagt er af stað. Nýjustu fréttir benda til að snjólítið sé á svæðinu miðað við árstíma og mikið um aurbleytu. Einnig viljum við benda á tilmæli Náttúrustofa Austurlands um að fara með gát á svæðinu því í maí bera hreinkýr og þær þola illa truflun. Sjá nánar hér.