Beint í efni

Vísindamenn NASA við rannsóknir norðan Vatnajökuls

Undanfarin ár hefur vísindafólk á vegum NASA (e. National Aeronautics and Space Administration) komið til rannsókna og æfinga á hálendið norðan Vatnajökuls og dvalið í tjaldbúðum við Drekagil, nærri Öskju. Saga NASA á svæðinu nær langt aftur, en Neil Armstrong og fleiri geimfarar dvöldu á sama svæði og gistu einnig við Drekagil á árunum 1965 og 1967. Svæðið verður fyrir valinu vegna sláandi líkinda þess við tunglið og Mars, en það hefur svipaða jarðfræðilega eiginleika.

14. febrúar 2022

Síðastliðið sumar kom hópur vísindamanna, verkfræðinga og geimfara frá NASA í rannsóknarleiðangur á svæðið, og sinnti rannsóknum svo sem:

- jarðvegsrannsóknum með tækjum svipuðum þeim sem eru um borð í Mars roverunum og notuð eru til að skoða hvort jarðvegur myndast á Mars. Staðsetningin er hentug því á svæðinu er mikið um ungan og frumstæðan jarðveg og fullt af basalti, líkt og finna má á Mars.

- leit að ís undir vikrinum og öskunni í Öskju með ratsjá (ground-penetrating radar (GPR)) en ísinn hafði áður greinstá gervihnattagögnum. Tekin vorusýni til rannsókna, en gögnin aðstoða Nasa við að bera kennsl á grafinn ís á tunglinu, Mars og Merkúríusi.

- flug yfir rannsóknarsvæðin með flygildum til þess bera saman gögnin sem fengin eru við rannsóknir á jörðu niðri og þau sem safnað er úr gervihnöttum. Langtímarannsóknir með drónum á Íslandi gefa einnig tækifæri á því að skoða breytingar, líkt og vegna veðurs, til þess að átta sig á breytingum á Mars.

- rannsóknir á efnafræði- og eðlisfræðilegum breytingum á Holuhrauni til þess að átta sig betur á slíku ferli á Jörðinni og öðrum plánetum, sem og jarðvegsrannsóknum á því lífi sem byrjar að myndast í sprungum og ungum jarðvegi.

- könnunarteymi frá Johnsons Space Center hjá NASA - tveir geimfarar, geimfaraþjálfari, verkfræðingur sem hannar jarðfræðiverkfæri fyrir geimfara og manneskja sem leiðsegir geimförum við störf þeirra á tunglinu - leituðu að mögulegum æfingastöðum fyrir Artemis geimfara og prufuðu búnað sem ætlaður er til notkunar á öðrum plánetum. Til gamans fór teymið einnig á sömu staði og Apollo teymin gerðu 1965 og 1967 og endursköpuðu sum af augnablikunum sem náðust á mynd á þeim tíma.

Að sögn Stefaníu Eir Vignisdóttur, aðstoðarmanns þjóðgarðsvarðar, er ævinlega mikið tilhlökkunarefni að fá Nasa hópinn á svæðið en þau gefa mikið af sér og deila þekkingu og segja frá rannsóknum sínum. Svo má sjá þau í felti víðs vegar um svæðið að sinna spennandi rannsóknum með ýmis konar tækjum. „Hópurinn í ár var sérstaklega fær í Kubb og máttu landverðir lúta í lægra haldi, ekki annars að vænta af fólki með stjarnfræðilega góða rýmisgreind! Landverðir munu væntanlega hefja æfingabúðir strax í júní til þess að eiga séns í næsta Nasa hóp í ágúst“, sagði Helga Hvanndal landvörður.

Sjá fleiri myndir hér á facebook síðu Vatnajökulsþjóðgarðs