Beint í efni

Vinnustofa um gerð íshellanámskeiðs

Íshellaferðir hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár. Árlega að vetri til eru mörg fyrirtæki sem stunda íshellaferðir í Vatnajökulsþjóðgarði.

26. janúar 2021

-Íshellaferðir hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár. Árlega að vetri til eru mörg fyrirtæki sem stunda íshellaferðir í Vatnajökulsþjóðgarði. Íshellar eru fallegir og síbreytilegir en fara skal varlega þar sem margar hættur geta leynst í þeim. Til að auka öryggi og þekkingu hefur AIMG (félag fjallaleiðsögumanna) ákveðið að búa til íshellanámskeið fyrir þá sem leiðsegja í íshellum. Námskeiðið er því þörf viðbót en fyrir eru t.d. til námskeið sem taka fyrir jöklagöngur.

Vinnustofan var haldin 13. og 14. janúar hjá Glacier Adventure á Hala í Suðursveit og á Breiðarmerkurjökli til að setja saman námskeiðið. Fyrirtækin sem tóku þátt í vinnustofunni voru: Glacier Adventure, IceGuide, Local Guide, Local Icelander, Niflheimar og Öræfaferðir. Einnig voru þrír fulltrúar frá AIMG ásamt fulltrúa frá Vatnajökulsþjóðgarði á vinnustofunni en það var yfirlandvörður á Breiðarmerkursandi sem einnig hefur stundað jöklaleiðsögn í fjölda ára.

Námskeiðið er í höndum AIMG en fyrirtækin og þjóðgarðurinn munu koma að vinnunni. T.d. sér Local Guide um að leggja drögin að handbók um íshella vegna mikillar reynslu í íshellaferðum.

  • Næstu íshellanámskeið verða haldin 22.-23. feb og 24.-25. febrúar árið 2021 en þau verða auglýst frekar á síðu AIMG

Við þökkum fyrir gott samstarf og hlökkum til að auka öryggi og fagmennsku í íshellaferðum.

Vinnuhópurinn saman kominn á Hala í Suðursveit