Beint í efni

Víðerni eru fjársjóður

Góð þátttaka var á málþingi um víðerni sem fram fór í Norræna húsinu síðastliðinn föstudag. Að meðaltali voru um 60 manns í salnum og 170 í beinu streymi. Álykta má að hátt í 300 manns hafi hlýtt á málþingið í heild. Stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands stóð að málþinginu í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð.

29. mars 2022

Málþinginu var ætlað að vera umræðugrundvöllur um víðerni út frá ólíkum sjónarmiðum. Fyrir liggur að kortleggja þurfi víðerni Íslands vegna breytinga á náttúruverndarlögum. Í framhaldi þarf að finna óbyggðum víðernum sess innan íslenskra laga til að tryggja vernd þeirra til framtíðar og fyrir komandi kynslóðir. Í því samhengi má t.d. nefna ítarlega endurskoðun á stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs og hvaða gildi óbyggð víðerni eigi að hafa í Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

„Mikilvægt er að standa vörð um óbyggðaupplifunina og náttúruna sem færir okkur þessa tilfinningu“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku-, og loftslagráðherra, þegar hann ávarpaði málþingið en sagði jafnframt að „tryggja þarf að samtalið um ferðafrelsið, verndun náttúrunnar og góða upplifun eigi sér stað og að allir geti tekið þátt“

Auður H. Ingólfsdóttir, formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs tók þátt í þriðja og síðasta pallborði málþingsins sem bar heitið víðerni og framtíðin. Auður sagði að loknu málþinginu að umræðan hefði skerpt á því hversu mikilvægt væri að eiga samtal milli ólíkra hópa um gildi víðerna og hvernig hægt sé að tryggja verndun þeirra.

„Ég veit ekki hvort allir átti sig á því hversu sérstakri stöðu við erum í hér á Íslandi að eiga enn stór óbyggð svæði þar sem áhrif mannsins eru lítt sjáanleg. Meira en 40 prósent af villtustu víðernunum sem eru enn eftir í Evrópu eru hér á Íslandi. Það er ekki neitt smá verkefni sem okkur er falið, að gæta að þessum fjársjóði,” sagði Auður.

Aðstandendur málþingsins vilja þakka öllum þeim sem tóku þátt í samtalinu á föstudaginn, fyrirlesurum, pallborðsstjórum, þátttakendum í pallborði og spyrjendum úr sal og á netinu, kærlega fyrir sitt framlag.