Beint í efni

Viðbrögð stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs vegna yfirvofandi náttúruhamfara við Svínafellsjökul

Á fundi stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs þann 12. júlí 2018 var fjallað um aðgerðir vegna mögulegra náttúruhamfara við Svínafellsjökul í Öræfum. Viðbrögðin snúa bæði að því að tryggja sem best öryggi ferðamanna og almennings og gagnvart fyrirtækjum sem hafa verið með atvinnustarfsemi á Svínafellsjökli en hafa þurft frá að hverfa vegna yfirvofandi hættu.

12. júlí 2018

Á fundi stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs þann 12. júlí 2018 var fjallað um aðgerðir vegna mögulegra náttúruhamfara við Svínafellsjökul í Öræfum. Viðbrögðin snúa bæði að því að tryggja sem best öryggi ferðamanna og almennings og gagnvart fyrirtækjum sem hafa verið með atvinnustarfsemi á Svínafellsjökli en hafa þurft frá að hverfa vegna yfirvofandi hættu. Á fundi sínum þakkaði stjórn þjóðgarðsverði og formanni svæðisráðs suðursvæðis fyrir góða vinnu með viðbragðsaðilum og ferðaþjónustufyrirtækjum til að bregðast við mögulegri hættu á berghlaupi úr Svínafellsheiði. Til viðbótar bókaði stjórn eftirfarandi:

Mikilvægt er að öryggi almennings verði sett í forgang í öllum aðgerðum innan þjóðgarðsins og tryggja þarf skýrar merkingar og leiðbeiningar til ferðamanna sem vara við hættu. Einnig er mikilvægt að loka leiðum sem ekki eru taldar öruggar, hvort heldur er til göngu eða aksturs á hættusvæði. Á meðan á óvissuástandi stendur gerir stjórn ekki athugasemdir við að skipulögðum gönguferðum verði beint á Skaftafellsjökul í samráði við þjóðgarðsvörð og landverði á svæðinu á grundvelli eftirfarandi:

  • Veitt verði tímabundið leyfi út árið 2018 og takmarkað leyfi.
  • Fyrirtækjum verði heimilt að fara í skipulagaðar ferðir á Skaftafellsjökul. Upphaf ferða er við upphaf göngustigs (S1) við Skaftafellsstofu.
  • Eingöngu þau fyrirtæki sem geta sýnt fram á að hafa verið að fara í skipulagðar ferðir á Svínafellsjökul verður heimilt að fara í skipulagðar ferðir á Skaftafellsjökul.
  • Fyrirtækin leggi fram nýtingaráætlun þar sem fram kemur fjöldi ferða áætlaður upphafstímiog lengd ferða.
  • Fjöldi ferða á hvert fyrirtæki á dag, miðast að hámarki við þær upplýsingar sem veittar voru þjóðgarðsverði í samtölum við forsvarsmenn fyrirtækja dagana fyrir fund 5. júlí 2018. Ekki verður heimilt að fjölga ferðum.”

Stjórn telur rétt að boða fyrirtæki til fundar við svæðisráð ásamt þjóðgarsverði í lok ágúst/byrjun september til að skoða framtíðarmöguleika á jöklaferðum í Öræfum og nágrenni. Einn fulltrúi hvers fyrirtækis yrðir þá boðaður á samráðsfund um stöðuna og hvað möguleikar eru til framtíðar varðandi jöklagöngur.