Beint í efni

Vetrarfuglatalning í Skaftafelli

Vetrarfuglatalning fór fram í Skaftafelli þann 13. janúar síðastliðinn. Vetrarfuglatalning er vöktunarverkefni á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands og hefur farið fram síðan 1952.

25. janúar 2024
Hrafnhildur og Elvar velta fyrir sér hversu margar rjúpur leynast við tjörnina – hvað sér þú margar á myndinni? Mynd: Páll Sigurgeir Guðmundsson

Vetrarfuglatalning fór fram í Skaftafelli þann 13. janúar síðastliðinn. Vetrarfuglatalning er vöktunarverkefni á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands og hefur farið fram síðan 1952. Á vef Náttúrufræðistofnunar segir að verkefnið sé ein lengsta samfellda vöktunin sem hefur farið fram hér á landi og tekur til flestra fuglategunda. Skaftafell hefur tekið þátt í verkefninu síðan 1985. Talningafólk var Elvar Ingþórsson, Hrafnhildur Ævarsdóttir og Páll Sigurgeir Guðmundsson.

Að þessu sinni voru skráðar 8 tegundir og sáust 81 fuglar á meðan talning fór fram. Auðnutittlingar og rjúpur voru algengar en einnig sáust stokkendur, urtendur, músarrindlar, svartþrestir og skógarþrestir. Eins má ekki gleyma heimilishrafninum sem heldur til í Skaftafelli.

Skaftafell býr yfir mörgum fuglategundum og sækja gestir þjóðgarðsins gjarnan upplýsingar til landvarða um þá fugla sem verða á vegi þeirra á göngu um svæðið. Starfsfólk býður spennt eftir vorinu þegar farfuglar fara að gera vart við sig. Hrossagaukur kemur gjarnan fyrstur á svæðið og þá er sumarið á næsta leiti.