Beint í efni

Vatnajökulsþjóðgarður þátttakandi í alþjóðlegu verkefni - "Samstarf í landbúnaði- bændur gæslumenn lands"

Verkefnið „Samstarf í landbúnaði - Bændur gæslumenn lands“ hefur hlotið styrk frá Norræna Atlantssamstarfinu, NORA. Um er að ræða samstafsverkefni Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga.

30. janúar 2023

Markmiðið með verkefninu er að hvetja bændur til þátttöku í náttúruvernd og umhverfisverkefnum, auk þess að greina hvernig landbúnaður og fyrr greind verkefni getur stutt við hvort annað.

Þátttakendur frá Íslandi eru Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins sem hefur umsjón með verkefninu og sér um verkefnastjórnun og Vatnajökulsþjóðgarður. Aðrir þátttakendur eru frá Grænlandi og Færeyjum, þar eru í samstarfinu ráðgjafaþjónustur í landbúnaði sem eru sambærilegar RML, Búnaðarstovan og Nunalerinermik Siunnersorteqarfik , auk þess sem Umhverfisstofnun Færeyinga Umhvørvisstovan er þátttakandi.

Verkefnið er hugsað sem vettvangur fyrir bændur, ráðunauta og fagaðila sem vinna við umhverfismál til að deila hugmyndum milli landa og efla tengslanet. Í verkefninu verður skoðað hvernig nýta má og yfirfæra þekkingu á milli svæða og í framhaldið þróa þekkingargrunn á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda í landbúnaði, sem byggður er m.a. á menningu svæða og hefðum. Verkefnið byggir að miklu leiti á grasrótarnálgun, þar sem sóst verður eftir hugmyndum frá bændum og þeir hvattir til að nýta sér umhverfið og staðbundna þekkingu í jákvæða þróun á búskap og nýsköpun.

Vonir standa til að í lokin muni verkefnið skilja eftir sig öflugan þekkingargrunn sem hægt verður að miðla til annarra bænda, stjórnvalda og fagaðila sem leiðbeina bændum í umhverfisverkefnum. Verkefnið mun einnig auka verðgildi óefnislegra afurða sem verða til í landbúnaði og styrkja stöðu bænda sem gæslumanna lands.

Verkefnið er hugsað til þriggja ára en styrkveiting til verkefnisins þetta ár nemur 500.000 danskra króna.

Sjá tilkynningu um NORA styrki á vefsíðu Byggðastofnunar:

https://www.byggdastofnun.is/is/frettir/category/1/nora-styrkir-sjo-samstarfsverkefni