Beint í efni

Vatnajökulsþjóðgarður stígur fyrsta græna skrefið

Frá upphafi Vatnajökulsþjóðgarðs hefur sjálfbærni og græn hugsun verið leiðarljós í starfi þjóðgarðsins.

10. júlí 2019

Frá upphafi Vatnajökulsþjóðgarðs hefur sjálfbærni og græn hugsun verið leiðarljós í starfi þjóðgarðsins. Með tilkomu Stjórnunar- og verndaráætlunar (1. útgáfa 2011) var ljóst að orðið sjálfbærni væri einn af rauðu þráðunum í stjórnun þjóðgarðsins, en orðið kemur alls 34 sinnum fyrir í áætluninni. En Græn skref í ríkisrekstri snúast um að efla vistvænan rekstur ríkisins meðal annars með því að draga úr rekstrarkostnaði, innleiða áherslur í umhverfismálum og auka vellíðan starfsmanna.

Við byggingu fyrstu gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs, Snæfellsstofu, var notast við breskan umhverfisstaðal (BREEAM). Snæfellsstofa var frumkvöðlaverkefni í að aðlaga umhverfisstaðalinn að íslenskum aðstæðum og er gestastofan fyrsta BREEAM vottaða hús landsins. Vatnajökulsþjóðgarður hefur einnig lengi tekið þátt í gæða -og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar, Vakanum. Sjálfbærni hefur ávallt verið starfsfólki hugleikin og hefur þátttaka í grænu skrefunum skerpt á því að vera ávalt með hugann við verkið og það er því mikið fagnaðarefni að hljóta viðurkenningu fyrir 1. græna skrefið í ríkisrekstri á öllum heilsársstarfsstöðvum þjóðgarðsins við Mývatn, í Gljúfrastofu, Fellabæ, Snæfellsstofu, Gömlubúð, Skaftafelli, Skaftársstofu og á Kirkjubæjarklaustri. í Urriðaholti, Garðabæ hafði Náttúrufræðistofnun Íslands sem einnig er þar til húsa þegar lokið öllum fimm Grænu skrefunum og nýtur Vatnajökulsþjóðgarður góðs af því á þeirri starfstöð.