Beint í efni

Vatnajökulsþjóðgarður stækkaður: Herðubreið og Herðubreiðarlindir hluti af þjóðgarðinum

Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið stækkaður og svæðið sem tilheyrt hefur Herðubreiðarfriðlandi frá 1974 er nú hluti af þjóðgarðinum.

29. júní 2019

Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið stækkaður og svæðið sem tilheyrt hefur Herðubreiðarfriðlandi frá 1974 er nú hluti af þjóðgarðinum. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag reglugerð þess efnis við Þorsteinsskála í Herðubreiðarlindum. Við þjóðgarðinn bætist einnig stærri hluti Ódáðahrauns en þar er m.a. að finna Kollóttudyngju, Eggert og Bræðrafell.

Með breytingunum bætast 560 km2 við þjóðgarðinn en það er ríflega hálft prósent landsins. Í janúar 2018 hófst formlegt umsóknarferli vegna tilnefningar Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO og mun niðurstaða heimsminjanefndar liggja fyrir 5. júlí n.k. Svæðisráð norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs óskaði eftir stækkun þjóðgarðsins og er hún jafnframt liður í áðurnefndu tilnefningarferli fyrir heimsminjaskrána.

„Stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs er mikilvægt skref í náttúruvernd. Með stækkun þjóðgarðsins fylgjum við eftir vilja heimafólks. Stækkunin er að auki liður í átaki stjórnvalda í friðlýsingum og hefur þýðingarmikla tengingu við tilnefninguna á heimsminjaskrána,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Um er að ræða einstakar jarðminjar og lindasvæði. Það er stórkostlegt að drottning íslenskra fjalla, Herðubreið, tilheyri nú stærsta þjóðgarði í Vestur-Evrópu – og að það gerist á 75 ára afmæli lýðveldisins Íslands.“

Sigríður Auður Arnardóttir ráðuneytisstjóri og Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifa undir reglugerðina

Ódáðahraun einkennist af víðfeðmum hraunbreiðum og vikrum og margar sérstæðar jarðmyndanir eru í hrauninu. Herðubreið er þekktust en hún er stapi sem varð til þegar ísaldarjökull var um 1.000 metra þykkur á þessum slóðum.

Við rætur Herðubreiðar eru Herðubreiðarlindir og Grafarlönd, gróðurvinjar í auðninni. Lindirnar laða að sér fjölbreytt fuglalíf. Heiðagæsir verpa á lækjar- og árbökkum og margar aðrar fuglategundir halda þar til, svo sem straumönd, stokkönd, lómur, sendlingur, lóa, maríuerla, sólskríkja, hávella, óðinshani og kría. Í lindunum ber mest á ætihvönn, gulvíði, grávíði og grasvíði. Litskrúðugust er eyrarrós sem blómstrar frá miðjum júlí og slær þá bleikum lit á eyrar og mela.

Hanna Kata þjóðgarðsvörður heldur tölu

Í og við Herðubreiðarlindir eru minjar hamfarahlaupa en það eru gífurleg flóð sem hafa komið úr Kverkfjöllum, vegna eldgosa þar og undan Dyngjujökli við eldgos frá Bárðarbungu. Stórir grjóthnullungar og malareyrar eru í hrauninu sunnan lindanna, allt frá ármótum Jökulsár og Kreppu niður fyrir Lindahraun. Eyvindarkofi er í hraunjaðrinum en veturinn 1774-1775 hafði Eyvindur Jónsson, Fjalla-Eyvindur, vetrardvöl í Lindunum. Á svæðinu er því einnig mikilvægar menningarminjar.

Landvarsla hefur verið efld á svæðinu frá og með þessu sumri með fræðslu og upplýsingagjöf og fram undan er aukin uppbygging innviða, svo sem hvað varðar gönguleiðir og merkingar. Fyrir liggur gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir svæðið, sem unnin verður af svæðisráði norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, með þátttöku almennings og hagaðila.

Kári Kristjánsson landvörður leiddi hópinn í fræðslugöngu um svæðið