Beint í efni

Vatnajökulsþjóðgarður kemur vel út í ástandsmati áfangastaða

Árið 2020 framkvæmdu starfsmenn Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum ástandsmat á 146 áfangastöðum ferðamanna innan friðlýstra svæða á Íslandi.

14. apríl 2021
Sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar vinna í uppbyggingu göngustígs í Eldgjá.

Umhverfisstofnun hefur framkvæmt matið í fjögur ár en þetta er í fyrsta skipti sem Vatnajökulsþjóðgarður og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum eru hluti af matinu.

Alls var gert mat á 23 áfangastöðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs. 61% staðanna voru metnir með einkunn yfir átta. Þá einkunn fá staðir sem taldir eru standast vel álag af völdum gesta og fara þar af leiðandi á grænan lista. Innviðauppbygging og landvarsla eru metnin sem áhrifaríkustu þættirnir í að gera svæðum kleift að taka á móti miklum fjölda gesta án þess að svæði verði fyrir álagi. Á árinu 2020 þarf einnig að taka tillit til þeirrar staðreyndar að færri gestir heimsóttu flest svæðin sökum heimsfaraldurs Covid 19.

Einn áfangastaður innan Vatnajökulsþjóðgarðs fékk minna en 5 í einkunn og fer á rauðan lista. Um er að ræða svokallaðan Námuveg á Breiðamerkursandi sem varð hluti af Vatnajökulsþjóðgarði árið 2017. Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið er á lokametrum í umsagnarferli og í áætluninni er m.a. markmið að gera þennan veg færan flestum farartækjum að áfangastað við Breiðárlón.

Ástandsmat áfangastaða er kerfi sem var þróað til að unnt væri að fá heildaryfirsýn um ástand áfangastaða á Íslandi. Matið er miðað að einum af stærstu þáttunum sem hafa áhrif á ástand náttúru Íslands, sem er ferðamennska og nýting náttúru til útivistar. Með reglubundnu, markvissu og skilvirku mati á áfangastöðum er hægt að fá betri yfirsýn yfir svæði og þannig skapast möguleiki á að grípa inní áður en í óefni er komið. Matið gefur einnig möguleika á betri forgangsröðum fjármuna er varða t.d. uppbyggingu innviða og landvörslu.

Gott samstarf var á milli Umhverfisstofnunar, Þjóðgarðsins á Þingvöllum og Vatnajöklulsþjóðgarðs í þessari vinnu. Samstarf þvert á þessar stofnanir sem takast á við álíka verkefni og áskoranir skilar breiðri þekkingu og sameiginlegum drifkrafti í að vinna að bættu aðgengi og vernd friðlýstra svæða.

Skýrslu um ástandsmatið má nálgast hér á vefsíðu Umhverfisstofnunar.

Hlekkur á frétt á vefsíðu Umhverfisstofnunar.