Beint í efni

Vatnajökulsþjóðgarður hafi gildi fyrir allt mannkyn

Vatnajökulsþjóðgarður og hluti gosbeltisins verða tilnefnd á heimsminjaskrá UNESCO en Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, undirrituðu í dag tilnefninguna fyrir hönd íslenska ríkisins.

30. janúar 2018
Við Hrútárjökul, einn af skriðjöklum Öræfajökuls.

Vatnajökulsþjóðgarður og hluti gosbeltisins verða tilnefnd á heimsminjaskrá UNESCO en Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, undirrituðu í dag tilnefninguna fyrir hönd íslenska ríkisins. Umsóknin verður afhent heimsminjaskrifstofu UNESCO í París miðvikudaginn 31. janúar 2018.

Í tilnefningunni er áhersla lögð á rekbeltið, heita reitinn undir landinu og eldstöðvakerfi í gosbeltunum ásamt samspili elds og íss sem einstakt er talið á heimsvísu.
Á heimsminjaskrá UNESCO eru staðir sem teljast hafa gildi ekki einvörðungu fyrir viðkomandi land heldur fyrir allt mannkyn.

Mikil ásókn er frá ríkjum heims að fá staði á heimsminjaskránna og eru sett ströng skilyrði af hálfu heimsminjanefndar áður en samþykki er veitt. Vonast er til að ákvörðun af hálfu heimsminjanefndar UNESCO liggi fyrir um mitt ár 2019. Ísland á þegar tvo staði á heimsminjaskránni, Þingvelli (2004) og Surtsey (2008).

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra sagði: „Í dag rekum við smiðshöggið á mikla undirbúningsvinnu sem miðar að því að koma Vatnajökulsþjóðgarði á heimsminjaskrá UNESCO. Ég er verulega ánægð með þá vinnu sem hefur átt sér stað og ég er bjartsýn á að þjóðgarðurinn bætist við heimsminjaskrána árið 2019. Það eru mörg tækifæri fólgin í því að efla þjóðgarðinn með þessum hætti, ekki síst fyrir ferðaþjónustuna og byggðirnar í nágrenni garðsins.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra sagði: „Friðlýst svæði eru mörg hver segull fyrir ferðamenn á sama tíma og þau tryggja vernd náttúrunnar. Tilnefning Vatnajökulsþjóðgarðs er lóð á þessa vogarskál og afar ánægjulegt skref. Rannsóknir hérlendis sýna að þjóðgarðar skila okkur raunverulegum efnahagslegum ávinningi bæði fyrir Ísland í heild og í heimabyggð. Náttúruverndin er óumdeilanlega ein grunnundirstaða ferðaþjónustunnar. Í þessu samhengi má nefna að stofnun miðhálendisþjóðgarðs er næsta stóra verkefnið okkar.“

Formlegur undirbúningur vegna tilnefningarinnar hefur staðið yfir frá árinu 2016 þegar sérstakri verkefnastjórn var falið að halda utan um og stýra vinnu við tilnefninguna í samræmi við leiðbeiningareglur UNESCO. Samráð var haft við sveitarstjórnir á viðkomandi svæðum. Vinir Vatnajökuls styrktu gerð tilnefningarinnar sem unnin var af Vatnajökulsþjóðgarði undir verkstjórn Snorra Baldurssonar.

Undirritunin fór fram við Hoffellsjökul í dag, en auk ráðherranna tveggja voru viðstödd fulltrúar sveitarfélaga, Vatnajökulsþjóðgarðs, og höfunda texta, ásamt verkefnisstjórn.

Fréttin er tekin af vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, en inniheldur leiðréttingu frá verkstjóra.

Tilnefninguna sjálfa má nálgast hér [pdf, 28 mb]