Beint í efni

Vatnajökulsþjóðgarður á tímamótum

Vatnajökulsþjóðgarður er tíu ára um þessa mundir og því má segja að hann hafi slitið barnsskónum og framundan séu unglingsárin.

7. júlí 2018
Þótt 10 ár séu ekki langur tími í stóra samhenginu þá hefur margt breyst í Vatnajökulsþjóðgarði frá stofnun þjóðgarðsins, svo sem á söndunum norðan Vatnajökuls hvar nýtt hraun leit dagsins ljós árið 2014.

Vatnajökulsþjóðgarður er tíu ára um þessa mundir og því má segja að hann hafi slitið barnsskónum og framundan séu unglingsárin. Þjóðgarðurinn, sem er einn sá stærsti í Evrópu, spannar tæp 14% af flatarmáli Íslands og nær yfir Vatnajökul og stór svæði í nágrenni hans, þar á meðal þjóðgarðana sem fyrir voru í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum.

Á framangreindum tímamótun hefur umræðan og umfjöllun fjölmiðla um Vatnajökulsþjóðgarð því miður aðallega snúist um tímabundna erfiðleika í rekstri sem tengjast m.a. gríðarlegri fjölgun ferðamanna en lítið hefur farið fyrir umfjöllun um það mikilvæga starf sem unnið er af starfsmönnum þjóðgarðsins á hverjum degi. Einnig má minna á að Vatnajökulsþjóðgarður var í byrjun þessa árs tilnefndur af íslenskum stjórnvöldum á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).

Hjá Vatnajökulsþjóðgarði starfa um 20 starfsmenn á heilsárgrundvelli og við þann hóp bætast nokkrir tugir landvarða og annarra starfsmanna á álagstímum. Þessi hópur býr yfir mikilli þekkingu á rekstri þjóðgarða við erfiðar aðstæður og því er ekki ofmælt að starfsmenn stofnunarinnar séu dýrmæt auðlind. Starfsmennirnir hafa það að meginmarkmiði að gestir Vatnajökulsþjóðgarðs geti notið jákvæðrar upplifunar í náttúru Íslands og fái góða þjónustu á stóru og fjölbreytilegu svæði. Auk þess hafa þeir það meginhlutverk að standa vörð um náttúruna og að fræða gesti og gangandi. Þetta er ögrandi verkefni fyrir fáa starfsmenn í þjóðgarði sem nær bæði yfir víðáttumikil og torfær svæði sem og fjölsótta ferðamannastaði. Í þessu samhengi má geta þess að á árinu 2017 sótti um ein milljón gesta þjóðgarðinn heim og hefur fjöldi þeirra vaxið mjög hratt frá því Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2008.

Framundan eru spennandi tímar hjá Vatnajökulsþjóðgarði og hjá öllum sem unna íslenskri náttúru m.a. vegna þess að sú ríkisstjórn sem nú er við stjórnvölin hefur sett sér metnaðarfull markmið á sviði náttúruverndar. Gleymum því samt aldrei að lykillinn að því að ná metnaðarfullum markmiðum er fólk með þekkingu og dýrmæta reynslu.

Magnús Guðmundsson
framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs