Beint í efni

Vatnajökulsþjóðgarður á góðri leið – ársskýrsla 2020

Ársskýrsla Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir árið 2020 hefur verið gefin út

20. ágúst 2021
Vinsælasta myndin 2020 á Instagram Vatnajökulsþjóðgarðs. Mynd: Stefanía Ragnarsdóttir

Í ávarpi framkvæmdastjóra kemur m.a. fram að árið 2020 hafi verið þungt í skauti vegna COVID-19 heimsfaraldursins sem hafði gríðarleg áhrif á líf, störf og ferðalög fólks um allan heim. Engu að síður gékk starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs vel á árinu 2020. Einn árangursmælikvarði er jákvæð niðurstaða ársreiknings síðustu þrjú árin og með 21 m.kr afgangi fyrir árið 2020. Annar mikilvægur mælikvarði er starfsánægja, en á árinu 2020 lenti Vatnajökulsþjóðgarður í 15. sæti af 41 stofnun í flokki meðalstórra stofnana í könnun stéttarfélagsins Sameykis um stofnun ársins.

Hér má nálgast ársskýrslu Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir árið 2020.

Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs

Ávarp Magnúsar Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs:

Vatnajökulsþjóðgarður er tólf ára gömul stofnun í stöðugri þróun. Þjóðgarðurinn nær til Vatnajökuls og stórra svæða í nágrenni hans, þar á meðal þjóðgarðanna sem fyrir voru í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum. Sumarið 2019 var stigið mikilvægt skref í þróun þjóðgarðsins þegar hann var samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO sem staðfestir að hann er einstakur á heimsvísu.

Árið 2020 var þungt í skauti vegna COVID-19 heimsfaraldursins sem hafði gríðarleg áhrif á líf, störf og ferðalög fólks um allan heim. Áhrifin á Vatnajökulsþjóðgarð voru þau helst að um tíma þurfti að loka eða takmarka aðgengi að tjaldsvæðum vegna sóttvarnaraðgerða. Auk þess fækkaði erlendum gestum þjóðgarðsins mikið sem leiddi af sér mikla lækkun sértekna en þær byggjast m.a. á tekjum af tjaldsvæðum og svokölluðum svæðisgjöldum sem ferðamenn greiða. Íslendingum fjölgaði á nokkrum áfangastöðum en sú aukning vó aðeins að litlum hluta á móti sértekjulækkun vegna fækkunar erlendu gestanna. Vegna þessara aðstæðna kom umhverfis- og auðlindaráðuneytið að því með stofnuninni að tryggja aukin fjárframlög til að halda úti reglubundinni landvörslu og þjónustu á áfangastöðum Vatnajökulsþjóðgarðs og ber sérstaklega að þakka fyrir það. Vegna þessa var fjöldi starfsmanna hjá þjóðgarðinum mjög svipaður og árið áður sem var afar jákvætt fyrir allt starf stofnunarinnar.

Vatnajökulsþjóðgarði hefur frá upphafi verið ætlað að styrkja byggð og atvinnustarfsemi m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar gæða svæðanna. Vatnajökulsþjóðgarður er því vettvangur umfangsmikillar atvinnustarfsemi sem er ein forsenda þess að þjóðgarðurinn nái tilgangi sínum. Innleiðing atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs, sem tók gildi 2019, hófst með þróunarverkefni á suðursvæði þjóðgarðsins á árinu 2020. Um var að ræða samvinnu við fyrirtæki sem hafa kallað eftir skýrum leikreglum m.a. við stýringu á fjölda ferðamanna í íshellaferðum og jöklagöngum til að tryggja öryggi og góða upplifun. Í verkefninu hefur skapast mikilvæg reynsla og þekking og á þeim grunni verður haldið áfram að þróa aðferðir þar sem meginmarkmiðið er sjálfbær uppbygging atvinnustarfsemi í sátt við samfélagið og náttúruna.

Mikil uppbygging stendur nú yfir á innviðum innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs, svo sem á gestastofum, þjónustuhúsum, gönguleiðum, merkingum og brúm. Innviðir sem þessir skipta máli til að tryggja góða umgengni um þjóðgarðinn, verndun náttúru og til að auka ánægju og góða upplifun gesta.

Starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs gekk vel á árinu 2020. Einn árangursmælikvarði er jákvæð niðurstaða ársreiknings síðustu þrjú árin og með 21 m.kr afgangi fyrir árið 2020. Annar mikilvægur mælikvarði er starfsánægja, en á árinu 2020 lenti Vatnajökulsþjóðgarður í 15. sæti af 41 stofnun í flokki meðalstórra stofnana í könnun stéttarfélagsins Sameykis um stofnun ársins. Af öllum ríkisstofnunum var Vatnajökulsþjóðgarður nr. 32 af 143 stofnunum og fór stofnunin upp um ríflega 40 sæti miðað við fyrra ár sem er vel af sér vikið. Enn einn mælikvarði er ánægja gesta og varð Vatnajökulsþjóðgarður nýlega í 2. sæti yfir bestu þjóðgarða í Evrópu og í 17. sæti á heimsvísu hjá Trip Advisor ferðavefnum sem er mikil viðurkenning og hvatning til að halda áfram þróun og uppbyggingu starfseminnar í Vatnajökulsþjóðgarði.

2ja metra reglan virt á fundi stjórnar í Jökulsárgljúfrum í ágúst 2020. Mynd: Ingibjörg Smáradóttir