Beint í efni

Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið skoðar stofnanaskipulag

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- orku- og loftslagsáðherra hefur ákveðið að taka til skoðunar stofnanaskipulag ráðuneytisins með það að markmið að efla og styrkja starfsemi stofnana ráðuneytisins. Ráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi vinnu sem nú er hafin við að greina umbótatækifæri og áskoranir sem felast í núverandi stofnanakerfi ráðuneytisins.

6. júlí 2022

Landvörður kynnir ferðafólk fyrir Öskju. Mynd; Stefanía Eir Vignisdóttir

Stofnanir umhverfis- orku- og loftslagráðuneytisins eru 13 talsins. Hjá þeim starfa 600 starfsmenn á um 40 starfsstöðvum víða um land og eru 61% starfanna á höfuðborgarsvæðinu. Flestar stofnananna eru svo nefndar A hluta stofnanir þar sem forstöðumaður stýrir starfi stofnunarinnar, en þrjár stofnanir hafa stjórn og eru það Úrvinnslusjóður, Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og Vatnajökulsþjóðgarður, auk Þingvallanefndar sem fer með yfirstjórn Þingvallaþjóðgarðs.

Vatnajökulsþjóðgarður er stofnun í mikilli þróun og varð stofnunin 14 ára á þessu ári. Þjóðgarðurinn nær yfir um 15% af Íslandi og var samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO árið 2019 vegna einstakrar náttúru á heimsvísu. Hjá Vatnajökulsþjóðgarði starfa 31 fastir starfsmenn með mikla þekkingu og reynslu og eru 26 þeirra á starfsstöðvum á landsbyggðinni. Á sumrin bætast við um 80 starfsmenn sem sinna landvörslu, þjónustu og fræðslu til gesta þjóðgarðsins og eru þau störf öll unnin á landsbyggðinni. Á árinu 2021 voru unnin um 50 ársverk hjá Vatnajökulsþjóðgarði og eru um 90% þeirra á landsbyggðinni.

Við greiningarvinnuna verður lögð áhersla á gott samstarfi við stjórnendur, auk þess sem leitað verður eftir sjónarmiðum og hugmyndum starfsmanna. Einnig verður haft náið samstarf við önnur ráðuneyti sem vinna að sambærilegum verkefnum. Gert er ráð fyrir að fyrir niðurstöður greiningarinnar liggi fyrir í lok þessa árs.

Nánar í frétt hjá Stjórnarráði Íslands hér