Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Umfjöllun í morgunþætti CBS um skráningu Vatnajökulsþjóðgarðs á Heimsminjaskrá

Skráning á Heimsminjaskrá vekur athygli út fyrir landssteinana og haustið 2019 komu þáttagerðarmenn frá bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS til landsins til að safna efni um skráningu svæða á skrána og tóku m.a. viðtal við þjóðgarðsvörð á suðursvæði.

5. ágúst 2021
Skjáskot úr morgunþætti CBS sjónvarpsstöðvarinnar.

Fyrir rúmum tveimur árum, þann 5. júlí 2019 var Vatnajökulsþjóðgarður samþykktur á Heimsminjaskrá Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Samþykktin er staðfesting á einstökum náttúruminjum þjóðgarðsins og gildi þeirra fyrir mannkyn allt. Skráning á Heimsminjaskrá vekur athygli út fyrir landssteinana og haustið 2019 komu þáttagerðarmenn frá bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS til landsins til að safna efni um skráningu svæða á skrána og tóku m.a. viðtal við þjóðgarðsvörð á suðursvæði. Heimsfaraldur Covid19 gerði það að verkum að birtingu efnisins var frestað og var ekki sett í loftið fyrr en í júlí á þessu ári. Umfjöllunin um Heimsminjaskrá var birt í morgunþætti CBS og upptökuna má nálgast á YouTube. Við deilum umfjöllun CBS hér en vekjum athygli á að hún er eingöngu á ensku.

Umfjöllunin tekur saman yfirlit yfir upphaf Heimsminjaskrár árið 1978, gildi og verndun svæða og þætti sem geta ógnað sérstöðu þeirra. Umsókn Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá og samþykktin er rauður þráður í gegnum þáttinn.

En hvað eiga kóralrif í Ástralíu, hellir í Kentucky, Bandaríkunum og borg í Perú sameiginlegt? Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna hefur það hlutverk að halda utan um þá staði á Jörðinni sem taldir eru hafa einstakt gildi fyrir allt mannkyn og kynslóðir framtíðar. Í dag eru yfir 1.000 náttúru- eða menningarminjar á skránni, staðir eins og Thai Mahal á Indlandi og Okavango Delta í Botwsana. Til að eiga mögulega á að komast á heimsminjaskrá, þá þarf staður eða svæði að vera tilnefnt af heimalandi sínu og uppfylla a.m.k. eina af tíu kröfum Heimsminjaskrár. Þetta get t.d. verið meistaraverk í hönnun eða byggingu, eða mikilvæg búsvæði fyrir ákveðna dýrategund. Vatnajökulsþjóðgarður uppfyllir kröfuna um jarðfræðilegt mikilvægi og eins og Helga Árnadóttir, þáverandi þjóðgarðsvörður, vekur athygli á í þættinum, þá eru það m.a. kraftar elds og íss sem hefur leitt til stórbrotinnar náttúru og fjölbreyttra fyrirbæra.

Á ársþingi UNESCO nú í lok júlí bættust 34 staðir við heimsminjaskrána, m.a. franski strandbærinn Nice í Frakklandi, fornar múmíur í Síle, viti í Frakklandi og heilsulindir í sjö Evrópulöndum. Sjá nánar í umfjöllun hjá RÚV.