Beint í efni

Þolmarkarannsókn á Breiðamerkursandi

Nýheimar Þekkingarsetur og Náttúrustofa Suðusturlands hafa tekið að sér framkvæmd rannsóknarverkefnis á þolmörkum Breiðamerkursands fyrir Vatnajökulsþjóðgarð.

30. september 2021
Breiðamerkursandur, Þröng, Breiðamerkurjökull, Þorvarður Árnason
Austanverður Breiðamerkursandur. Mynd: Þorvarður Árnason

Að verkefninu koma einnig Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði og aðrar fagstofnanir auk sérfræðinga Vatnajökulsþjóðgarðs. Vinna við verkefnið hófst í ágúst 2021 og áætlað er að því ljúki við lok árs 2022.

Markmið þolmarkarannsóknarinnar er að meta ástand svæðisins og gera áætlun um hvernig tryggja megi sjálfbæra þróun þess. Lögð verður áhersla á fjögur svæði þar sem umferð og álag eru mest: Athafnasvæðin við Fjallsárlón og Jökulsárlón ásamt svæðinu frá þjóðvegi að jökuljaðri austan megin (Þröng) og svæðinu frá þjóðvegi að jaðri jökulsins að vestanverðu (Námuvegur/Breiðá). Könnuð verða þolmörk náttúru, innviða og menningarminja í ljósi vaxandi umferðar ferðafólks um svæðið. Einnig verða viðhorf ferðafólks á Breiðamerkursandi könnuð og mun Rannsóknamiðstöð ferðamála standa að þeim hluta rannsóknarinnar.

Fréttin birtist fyrst í Eystrahorni.