Sýningin Bergmálin ísa í Skaftafellsstofu
Sýningin Bergmálin ísa, Echoes of Ice opnaði í Skaftafellsstofu í Vatnajökulsþjóðgarði þann 6. júlí og verður opin til 30. september 2025.

Bergmálin ísa er alþjóðleg sýning sem býður listamönnum, vísindamönnum og skapandi einstaklingum frá Íslandi og um allan heim að ávarpa síbreytileg tengsl okkar við jökla á Íslandi. Sameinuðu þjóðirnar helga árið 2025 varðveislu jökla og efnt var til sýningarinnar af því tilefni, hún er haldin er í Skaftafellsstofu og á netinu.
Með þemunum Hvað var, Hvað er og Hvað gæti verið, ávarpar sýningin fortíð, nútíð og ímyndaða framtíð þessa breytilega landslags: hvernig þetta hverfandi landslag mótar minningar, merkingu og sameiginlega framtíð okkar. Sýningarstjórar Bergmálanna ísa, Echoes of Ice eru Alice Sowa og Eva Bjarnadóttir og þátttakendurnir eru 32. Flest verkin eru til sýnis í gestastofunni í Skaftafelli en sum eru aðeins á netinu, https://echoesofice.com/

Mynd: Sigrún Sigurgeirsdóttir
Á vissan hátt fléttast vísindi og list saman í þessari fallegu sýningu og höfundarnir koma víða að: sumir frá Öræfum, sumir frá öðrum stöðum á Íslandi og sumir frá öðrum heimshlutum.
Það er tilvalið að koma í heimsókn í Skaftafell og skoða sýninguna, þú getur notað tækifærið og skoðað náttúruperlurnar sem þar er að finna eins og Svartafoss og Skaftafellsjökul.

Mynd: Sigrún Sigurgeirsdóttir
Þátttakendur í sýningunni eru, í stafrófsröð: Alberte Parnuuna, Alice Sowa, Anna Diljá Sigurðardóttir, Anna Edelman, Antonía Bergþórsdóttir, Ashley Apodaca, Damian Aleksy Grela, Dan Cassidy, Eva Bjarnadóttir Heimir Björgúlfsson, Hrafnhildur Hannesdóttir, Íris María Leifsdóttir, Jakob Veigar Sigurðsson, Joaquin M.C. Belart, Judith Sturm, Karl Pont, Katharina Hitz, Kieran Baxter, Konstantine Vlasis, Lovísa Fanney Árnadóttir, Matteo Rosa, Maya Smira, Milena Makani, Néfur, Paula Dischinger, Pontus Hummelman, Ragnheiður Sigurðar Bjarnarson, Samantha Romero Rodriguez, Saoirse Higgins, Sarah Bachinger, Vikram Pradhan, Wera Pelczynska.
Laugardaginn 23.ágúst kl. 16 verður viðburður í Skaftafellsstofu og öllum er velkomið að taka þátt. Sarah Bachinger stýrir vinnustofunni VOICES FROM THE MELT og sýnir stuttmynd sína “Elegy For A Glacier”, viðburðurinn mun fara fram á ensku en starfsfólk þjóðgarðsins mun aðstoða með þýðingar eftir föngum.

Mynd: Jón Ágúst Guðjónsson