Beint í efni

Skóflustunga og afmælisveisla á Kirkjubæjarklaustri

Sunnudaginn 7. júní næstkomandi fögnum við 12 ára afmæli Vatnajökulsþjóðgarðs. Þann dag verður tekin skóflustunga að nýrri gestastofu, á vestursvæði þjóðgarðsins, við Kirkjubæjarklaustur.

29. maí 2020

Gestastofunnar hefur verið beðið með talsverðri óþreyju undanfarin ár, en nú er búið að bjóða út fyrsta áfanga, þ.e. aðkomuveg og bílastæði og áætlað að þeim hluta ljúki í ágúst. Jarðvegsvinnan við bygginguna sjálfa er á leið í útboð svo hjólin eru sannarlega farin að snúast og full ástæða til að halda hátíð.

Byggingin mun rísa við svonefndan Sönghól í landi Hæðargarðs, sunnan Skaftár, beint á móti byggðinni á Klaustri og er byggingarlóðin höfðingleg gjöf til Vatnajökulsþjóðgarðs frá Magnúsi Þorfinnssyni, landeiganda.

Athöfnin hefst klukkan 13:30 á byggingarreitnum þar sem Magnús, ásamt umhverfis- og auðlindaráðherra og fulltrúum Vatnajökulsþjóðgarðs og Skaftárhrepps, munu taka skóflustungu. Það ræðst af gjafmildi veðurguðanna hversu stór hluti dagskrárinnar fer fram undir berum himni, en hátíðardagskráin heldur svo áfram í Skaftárstofu, núverandi gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri, sem á athvarf sitt í félagsheimilinu Kirkjuhvoli. Nemendur úr Tónlistarskóla Skaftárhrepps taka þátt í dagskránni og á veggjum verður m.a. sýning frá nemendum Leikskólans Kærabæjar. Við endum svo gleðina á veislukaffi í umsjón Kvenfélags Kirkjubæjarhrepps.

Þar sem svo heppilega vill til að nú megum við aftur hittast á meðan fjöldinn fer ekki yfir 200 manns langar okkur að hvetja heimamenn, vini, velunnara Vatnajökulsþjóðgarðs og aðra áhugasama til að koma og gleðjast með okkur þennan dag.

Kærar kveðjur úr Vatnajökulsþjóðgarði