Beint í efni

Samráðsfundur svæðisráðs suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs og rekstaraðila innan þjóðgarðs

Fimmtudaginn 4. október fór fram á Smyrlabjörgum í Suðursveit samráðsfundur milli svæðisráðs suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, starfsmanna þjóðgarðsins og rekstaraðila á suðursvæði þjóðgarðsins.

9. október 2018

Fimmtudaginn 4. október fór fram á Smyrlabjörgum í Suðursveit samráðsfundur milli svæðisráðs suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, starfsmanna þjóðgarðsins og rekstaraðila á suðursvæði þjóðgarðsins. Nýheimar Þekkingarsetur sá um skipulagningu fundarins og mun setrið einnig taka saman greinargerð með niðurstöðum.

Í upphafi fundarins voru flutt tvö erindi. Fyrst var það Hrafnhildur Hannesdóttir jöklafræðingur sem fjallaði um áhrif loftslagsbreytinga á jökla á suðursvæði þjóðgarðsins. Að henni lokinni fjallaði Ragnar Þór Þrastarson, fjallaleiðsögumaður og eigandi Asgard Beyond, um áskoranir þess að reka afþreyingarfyrirtæki í síkvikri náttúru.

Að erindum loknum tók við hópavinna, þar sem þátttakendum var skipt niður á borð. Við tóku líflegar og gagnlegar umræður, meðal annars um atvinnustefnu þjóðgarðsins, aðlögun ferðaþjónustunnar að breyttum náttúrufarslegum aðstæðum, gæða og öryggismál, aðgangsstýringu, og gjaldtöku. Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs flutti lokaorð að umræðum loknum.

Það er mat þeirra sem að fundinum stóðu að samtalið í Suðursveit þennan fimmtudag hafi almennt verið málefnalegt og gagnlegt. Niðurstöður verða nýttar fyrir þá vinnu sem framundan er við gerð atvinnustefnu, endurnýjun stjórnunar- og verndaráætlunar og við fyrstu stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand. Á komandi mánuðum mun svæðisráð og þjóðgarðurinn beita sér fyrir frekara samráði með breiðari aðkomu hagsmunaaðila. Uppbyggileg og heiðarleg umræða er mikilvæg til að hægt sé að standa við verndarmarkmið og sjálfbæra nýtingu á náttúrugæðum Vatnajökulsþjóðgarðs.

Svæðisráð og starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs á suðursvæði