Beint í efni

Ratleikur í réttum

Skaftárstofa í samvinnu við Kötlu jarðvang og Umhverfisstofnun stóð að ratleik í tilefni Uppskeruhátíðar Skaftárhrepps.

2. desember 2021
Skaftárrétt. Ein af vísbendingum í ratleiknum. Mynd: Erla Þórey Ólafsdóttir.

Leikurinn fólst í að fara í ýmsar fjárréttir í Skaftárhrepp í nóvember og leita að leyniorði og límmiðum. Með í pakkanum fylgdu svo fróðleiksmolar um viðkomandi rétt. Hægt var að taka þátt í þremur útfærslum, Litla-Lat en þá var farið á fjóra staði, Mið-Lat með átta staði og Stóra-Lat þar sem farið var á alla tólf staðina.

Þátttakan fór fram úr björtustu vonum, 37 þátttakendur skiluðu inn þáttökuseðlum og lang flestir fóru á átta staði eða fleiri. Þegar leiknum var lokið var dregnir út níu vinningar og er gaman að segja frá því að vinningshafar voru á öllum aldrei. Sá yngsti var fimm ára en sá elsti sjötíu og fimm ára. Fyrirtæki á svæðinu og úr nágrenni þess gáfu vinninga og viljum við þakka þeim kærlega fyrir. Sjá nánar hér.

Þetta er í annað skiptið sem ratleikur er í boði á Uppskeruhátíð og er þetta orðið ein af hefðum kringum þessa staðarhátíð. Það er gaman fyrir Vatnajökulsþjóðgarð að geta tekið þátt í viðburðum í nærsamfélaginu og leggja þannig sitt af mörkum til að efla samfélagið. Vatnajökulsþjóðgarður þakkar öllum þátttakendum og fyrirtækjum fyrir góðar og jákvæðar viðtökur.

Vísbendingakassi með leyniorðu og límmiða. Mynd: Erla Þórey Ólafsdóttir.