Beint í efni

Plastlaus september - Svalaferna frá 9. áratugnum í Skaftafelli

Í Austurbrekkum Skaftafellsheiðar, rétt áður en komið var að Sjónarnípu, fann landvörður fyrir stuttu svalafernu við stíginn. Fernan var að mestu grafin ofan í mold og stóð bláendinn uppúr. Það þykir kannski ekki merkilegt að tína upp eina, tóma, svalafernu því eins leitt og það er, þá er ruslatínsla enn hluti af reglulegum verkum landvarða. Það sem vakti hins vegar athygli landvarðarins var útlit fernunnar.

6. september 2022

Við nánari skoðun kom í ljós að fernan hafði að öllum líkindum tilheyrt ferðlangi sem var á leið um skógarstíg Austurbrekkna fyrir 36 árum. „Best fyrir“ dagsetning var frá október 1986. Litirnir á fernunni voru enn nokkuð skýrir og drykkjarrörið var alveg heilt.

Í plastlausum september árið 2022 má líta á þennan „fund“ sem þarfa áminningu um áhrif manna á umhverfi okkar. Hvað viljum við sjá á göngustígum framtíðarinnar? Hvað getum við gert núna til að koma í veg fyrir niðurgrafnar svalafernur á skógarstígum eftir 40 ár?

Vatnajökulsþjóðgarður leggur aukna áherslu á minni plastnotkun í starfsemi sinni þennan september mánuð, m.a. með því að minna á eftirfarandi hugtök og aðgerðir þeim tengdum. Allir geta gert eitthvað – Saman getum við svo margt!

Nota minna – Endurnýta – Endurvinna