Beint í efni

Öryggismál og Mannamót

Starfsfólk þjóðgarðsins hafði í nógu að snúast í liðinni viku og tók m.a. þátt í tveimur viðburðum sem skipta miklu máli fyrir gesti þjóðgarðsins en ekki síður starfsmenn hans. Um er að ræða málþing um öryggismál og Mannamót markaðsstofa landsbyggðarinnar.

31. mars 2022

Anna og Stefanía Eir á Mannamóti. Mynd: Guðmundur Ögmundsson

Þriðjudaginn 22. mars var haldið málþing um öryggi í ferðaþjónustu á vegum Ferðamálastofu og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Málþingið fór fram í Grindavík en því var einnig streymt. Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir, verkefnastjóri skipulags- og öryggismála hélt erindið Öryggi og aðgengi í Vatnajökulsþjóðgarði.

Í erindinu var fjallað um ólíkt eðli svæða í víðfeðmum þjóðgarði og áskoranir í öryggismálum í því samhengi (t.d. varðandi veðurfar, árstíðabundnar sveiflur og náttúruvá). Ennfremur var fjallað um það hvernig þjóðgarðurinn leggur sig fram við að mæta þeim áskorunum með leiðbeiningum og upplýsingum í stað lokana, sé þess nokkur kostur. Að lokum var rætt um atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarð. Verkefnið er dæmi um nána samvinnu þjóðgarðs og ferðaþjónustu, sem hefur nú leitt af sér aukna fagmennsku hvað varðar öryggis- og ferðamál, sem er báðum aðilum kappsmál.

Upptöku frá streyminu má nálgast hér. Fyrirlestur Hönnu Kötu hefst á mínútu 38 í upptökunni og tekur um 20 mínútur.

Fimmtudaginn 24. mars fór síðan fram Mannamót, sem er árleg ferðakaupstefna á vegum markaðsstofa landsbyggðarinnar og að þessu sinni haldin í Kórnum í Kópavogi. Markmið og tilgangur viðburðarins er að skapa vettvang þar sem landsbyggðarfyrirtæki fá tækifæri til að kynna sína þjónustu og vöruframboð fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu.

Gestir Vatnajökulsþjóðgarðs eru margir viðskiptavinir íslenskrar ferðaþjónustu. Gott samtal og þekking milli ferðaþjónustunnar og þjóðgarðsins skiptir því miklu máli til að ná að uppfylla markmið þjóðgarðsins um verndun náttúru- og menningarminja, aðgengi, upplifun og fræðslu um náttúru- og menningarverðmæti hans.

Í ár mættu á Mannamótið fyrir hönd þjóðgarðsins Guðmundur Ögmundssons, þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfrum, Anna Þorsteinsdóttir, þjóðgarðsvörður á hálendi norðursvæðis og Stefanía Eir Vignisdóttir, aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar á hálendi norðursvæðis.

Anna, Stefanía Eir og Guðmundur á Mannamóti (Mynd: Stefanía Ragnarsdóttir).

Hanna Kata á málþingi um öryggi í ferðaþjónustu (Mynd: Af facebook siðu Ferðamálastofu).