Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Öræfahlaupið haldið í fyrsta sinn

Öræfahlaupið var haldið í Vatnajökulsþjóðgarði í Skaftafelli laugardaginn 28. júní 2025, í ágætu veðri. Þetta er í fyrsta sinn sem svona hlaup hefur verið haldið í Skaftafelli, en löng hefð hefur verið fyrir Jökulsárhlaupi í Ásbyrgi.

7. júlí 2025
Hlaupið ræst. Mynd: Sigrún Sigurgeirsdóttir

Öræfahlaupið er 23 km utanvegahlaup með 1.000m hækkun: hlaupið frá gestastofunni upp að Svartafossi, þaðan upp að Kristínartindum og niður að Sjónarskeri, inn í Morsárdal og loks eftir aurnum til baka að Skaftafellsstofu.

Keppendur létu mjög vel af hlaupinu og dásömuðu útsýnið á leiðinni ásamt því að hrósa skipuleggjendum fyrir mjög gott utanumhald. Teymið sem skipulagði hlaupið voru þau Hlynur Guðmundsson, Ósk Gunnarsdóttir og Þorsteinn Roy Jóhannsson ásamt fjölskyldum sínum.

Þorsteinn Roy var með stuttan upplýsingafund fyrir keppendur áður en hlaupið var ræst. Mynd: Sigrún Sigurgeirsdóttir

Það voru 118 keppendur sem luku hlaupinu og það var gaman að sjá hve þátttakan var góð úr nærsamfélaginu: 8 keppendur úr Öræfum, 1 úr Suðursveit og 14 frá Hornafirði svo alls voru 23 keppendur úr Sveitarfélaginu Hornafirði eða 19% þátttakenda. Suðursveitungurinn var sprettharðasti keppandinn: Wojciech Tarasek sem starfar í ferðaþjónustu við Jökulsárlón sigraði á tímanum 02:02:34 og spretthörðust í kvennaflokki var Andrea Kolbeinsdóttir á tímanum 02:19:14.

Hlauparar og áhorfendur hlusta á kynningu Þorsteins. Mynd: Sigrún Sigurgerisdóttir

Sigurgeir yfirlandvörður í Skaftafelli að hlaupa niður í Morsárdalinn. Mynd: Sigrún Sigurgeirsdóttir