Beint í efni

Nýtt upplýsingahús á tjaldsvæði Ásbyrgis

Í gær var tekið í notkun nýtt upplýsingahús á tjaldsvæðinu í Ásbyrgi. Húsið hefur fengið nafnið Álfhóll og er ætlunin að nýta það til að bæta þjónustu við gesti tjaldsvæðisins.

29. júní 2018
Sylvía landvörður á vakt í Álfhóli í gærkvöldi. Við eigum enn eftir að mála húsið og snyrta betur til og því sýnum við ekki betri myndir af því en þetta. Þær koma þó vonandi síðar!

Í gær var tekið í notkun nýtt upplýsingahús á tjaldsvæðinu í Ásbyrgi. Húsið hefur fengið nafnið Álfhóll og er ætlunin að nýta það til að bæta þjónustu við gesti tjaldsvæðisins. Landverðir munu hafa viðveru í húsinu frá klukkan 17 til 22 alla daga fram í ágúst, þó viðbúið sé að þeir munu af og til bregða sér frá á auglýstum afgreiðslutíma í einhverjar reddingar.

Upplýsingahúsið Álfhóll stendur rétt norðan við stóra snyrtihúsið og blasir við þegar keyrt er af Ásbyrgisvegi inn að tjaldsvæðinu. Gestir eru hvattir til að ganga frá tjaldgistigjöldum í Álfhóli á komudegi, ekki síst til að losna við að vera vaktir upp snemma næsta morgun. Í Álfhóli er einnig hægt að fá upplýsingar um gönguleiðir og ýmsa afþreyingarmöguleika í nágrenninu, millistykki fyrir rafmagnstengla, skiptimynt og vonandi flest annað sem þörf þykir fyrir.

Þess má geta að nýja upplýsingahúsið er ekki alveg nýtt; það var áður notað sem upplýsingahús í Möðrudal og þar á undan var það staðsett við Jarðböðin í Mývatnssveit. En hvort það eigi sér lengri forsögu þekkjum við ekki. Lumi einhver á vitneskju um það þætti okkur forvitnilegt að heyra af því.