Nýtt salernishús risið við Dettifoss
Merkur áfangi í sögu Vatnajökulsþjóðgarðs náðist á dögunum þegar verktakar luku við byggingu nýs salernishúss við Dettifoss vestanverðan. Með nýja húsinu batnar til muna aðstaða fyrir bæði gesti þjóðgarðsins og landverði, auk þess sem stórt skref er stigið á átt að aukinni sjálfbærni.
Nýja salernishúsið er í raun fjögur hús tengd saman með yfirbyggingu, reist á sameiginlegum steyptum sökkli sem jafnframt myndar kjallara. Samtals er byggingin 150 m2, en þar af er kjallarinn tæpir 94 m2. Að vissu leyti má segja að um nýsköpunarverkefni sé að ræða því salernið er svokölluð þurrsalernislausn. Samskonar lausn var reist í Vikraborgum við Öskju sumarið 2018 en við Dettifoss er umfangið þó töluvert stærra með 14 salernum auk lagerrýmis og aðstöðu fyrir landverði.
Þurrsalernislausnin er samkvæmt finnskri hönnun og hefur reynst mjög vel í Vikraborgum. Ekkert vatn er á salernunum heldur safnast úrgangur í tunnur í kjallaranum og þvag fer áfram í sérstakan safntank. Úrgangsefnið verður svo meðhöndlað og nýtt til uppgræðslu í samstarfi við Landgræðsluna. Því má segja að jákvæð umhverfisáhrif verði af þessum nýjum salernum.
Annað sem telst vera kostur við þurrsalernislausnina er rekstraröryggi, því hvorki stíflast né frýs í lögnum. Í því samhengi ber að líta til þess að hvorki er hitaveita né veiturafmagn á staðnum og salernishúsið því óupphitað þar sem það stendur fjarri mannabyggðum, tæpa 350 m yfir sjávarmáli. Þar með er ekki sagt að húsið sé með öllu rafmagnslaust því sólarorka verður nýtt til lýsingar innandyra.
Bygging salernishússins var í höndum Byggingarfélagsins Stafnsins ehf. ARGOS arkitektar teiknuðu húsið, en jafnframt komu Efla og Landmótun að hönnun hússins og umhverfis þess. Verkið var fjármagnað af landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.