Beint í efni

Nýsköpun - menntun - rannsóknir

Nú janúar fékk Framhaldsskólinn í Austur Skaftafellssýslu (FAS) styrk frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu til þess að efla menntun og rannsóknir á sviði jöklaferðamennsku.

3. maí 2021

Markmið verkefnisins er að efla jöklaferðaþjónustufyrirtæki sem starfa innan Vatnajökulsþjóðgarðs til nýsköpunar sem byggir á menntun og rannsóknum. Horft verður til þess að byggja upp hæfni fyrirtækja til að koma sér upp starfsþróunaraðferðum þar sem ævimenntun sem byggir á formlegu, óformlegu og formlausu námi, er grunnurinn.

Öllum fyrirtækjum sem eru með samning við Vatnajökulsþjóðgarðs um íshellaferðir og jöklagöngur var boðin þátttaka í verkefninu og að endingu voru það 10 fyrirtæki sem tóku þátt. Stýri- og bakhópur verkefnisins er samsettur af fulltrúum frá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu, Ríki Vatnajökuls ehf, Ferðamálafélagi Austur-Skaftafellssýslu, Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Hornafirði, Nýheimum þekkingarsetri og Vatnajökulsþjóðgarði.

Nú hefur verið þróuð spurningakönnun sem fyrirtækin munu senda á gesti sína eftir að ferð hefur verið farin, en einnig mun starfsfólk í gestastofum þjóðgarðsins hvetja gesti til þess að taka þátt í könnuninni. Grunnhugmyndin með könnuninni er sú að rannsóknarniðurstöður eru nýttar til þess að bæta gæði og þjónustu, einkum hjá þeim fyrirtækjum sem starfa innan marka þjóðgarðsins og um leið skapa undirstöður fyrir markvissa nýsköpun.