Beint í efni

Nýr þjóðgarðsvörður ráðinn á norðurhálendi

Anna Þorsteinsdóttir hefur verið ráðin þjóðgarðsvörður á norðurhálendi Vatnajökulsþjóðgarðs með aðsetur í Mývatnssveit.

4. nóvember 2020

Anna er með BA próf í samfélags- og hagþróunarfræði og diplóma í lýðheilsuvísindum og er nú að ljúka meistaranámi í stjórnun og stefnumótun við Háskóla Íslands. Ráðgert er að Anna hefji störf fljótlega. Anna þekkir Vatnajökulsþjóðgarð vel og hefur starfað sem landvörður og yfirlandvörður á vestur- og norðursvæði þjóðgarðsins í fjölmörg sumur. Auk þess hefur Anna starfsreynslu sem forstöðumaður félagsmiðstöðvar, staðarhaldari í Þórsmörk og leiðsögumaður. Staðan var auglýst þann 11. september sl. og alls bárust 23 umsóknir. Vatnajökulsþjóðgarður býður Önnu velkomna til starfa.

Anna tekur við af Jóhönnu Katrínu Þórhallsdóttur sem hefur starfað sem hálendisfulltrúi og seinna sem þjóðgarðsvörður á svæðinu síðan 2017. Vatnajökulsþjóðgarður vill þakka Jóhönnu Katrínu eða Hönnu Kötu fyrir vel unnið og mikið hugsjónastarf á svæðinu undanfarin ár. Hanna Kata verður þjóðgarðinum áfram til halds og traust og tekur við sérfræðiverkefnum innan þjóðgarðsins.