Beint í efni

Nýr fræðslustígur á Kirkjubæjarklaustri

Þann 8. nóvember opnaði Vatnajökulsþjóðgarður nýjan fræðslustíg á Kirkjubæjarklaustri. Stígurinn er í raun jarðfræðileikur sem tengir þátttakendur við jarðfræðileg fyrirbæri í nágrenni hans, eins og Lakagíga, Eldgjá og Lómagnúp og fjallar um áhrif heita reitsins og jökulhlaupa, svo eitthvað sé nefnt.

24. nóvember 2019

Þann 8. nóvember opnaði Vatnajökulsþjóðgarður nýjan fræðslustíg á Kirkjubæjarklaustri. Stígurinn er í raun jarðfræðileikur sem tengir þátttakendur við jarðfræðileg fyrirbæri í nágrenni hans, eins og Lakagíga, Eldgjá og Lómagnúp og fjallar um áhrif heita reitsins og jökulhlaupa, svo eitthvað sé nefnt.

Stígurinn liggur á milli gestastofunnar og sundlaugarinnar og er fullur af skemmtilegum áskorunum og upplýsingum. Undanfarin ár hefur stígurinn verið í vinnslu og þakkar þjóðgarðurinn öllum sem lögðu hönd á plóg sérstaklega Vinum Vatnajökuls og SASS, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga sem styrktu gerð stígsins.

Opnun stígsins var einnig framlag Vatnajökulsþjóðgarðs til dagskrár Uppskeru- og þakkarhátíðar í Skaftárhreppi, sem var sett í gærkvöldi og stendur alla helgina. Nemendur Kirkjubæjarskóla aðstoðuðu við opnunina og við færum þeim okkar bestu þakkir fyrir. Eins viljum við þakka starfsfólki skólans og áhugasömum foreldrum sem mættu galvaskir til leiks og hjálpuðu okkur að gera þetta að skemmtilegri samverustund.

Sérstakar þakkir fær Skúli Jónssons fyrir sitt óborganlega framlag við gerð stígsins.