Beint í efni

Nútíð og framtíð - Sumarfagnaður í Skaftafelli

Það var sannkallaður sumarfagnaður í veðurblíðunni í Skaftafelli þegar ráðherra umhverfis- og auðlindamála, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, staðfesti stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand ásamt fleiri embættisverkum.

30. júní 2021
Starfsfólk þjóðgarðsins ásamt ráðherra og ráðuneytisstjóra umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Fjölmenni var á svæðinu við hátíðlega athöfn við þjónustumiðstöðina í Skaftafelli og gestir nutu veðurblíðunnar og góðra veitinga. Ráðherra umhverfis- og auðlindamála, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, staðfesti stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand, skrifaði undir stækkun þjóðgarðsins á suðursvæði, tók við greinargerð um framtíðarsýn fyrir Skaftafell ásamt því að afhjúpa fyrsta UNESCO skjöldinn í þjóðgarðinum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra undirritar stækkun reglugerð um stækkun suðursvæðis (t.v.) og afhjúpar fyrsta UNESCO skjöldinn (t.h.). Myndir: Jón Ágúst Guðjónsson.

„Það er sérstakt fagnaðarefni að málefni Skaftafells hafa fengið aukinn byr á undanförnum misserum, meðal annars með nýrri framtíðarsýn fyrir svæðið og margvíslegum umbótum á svæðinu. Sérstaklega er líka ánægjulegt að vinnu við stjórnunar- og verndaráætlun, meginstjórntæki þjóðgarðsins, fyrir Jökulsárlón er nú lokið. Vinnan við hana byggir á miklu og góðu samtali við hagaðila eins og vera ber. Á forsendum hennar og nýsamþykkts deiliskipulags er hægt að stýra umferð og haga uppbyggingu innviða við Jökulsárlón eins og þörf er á. Næsta verkefni er að vinna deiliskipulag fyrir Skaftafell,“ sagði Guðmundur Ingi, umhverfis- og auðlindaráðherra. [Frétt á vefsíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytis].

Staðfesting ráðherra á [stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand-vantar hlekk] er merkur áfangi í starfsemi þjóðgarðsins. Svæðið liggur u.þ.b. frá Fjallsá að vestan og í austur að Fellsá og kom inn í þjóðgarðinn sumarið 2017 þegar ríkissjóður keypti jörðina Fell og þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra friðlýsti svæðið. Svæðið nær m.a. yfir Jökulsárlón, Fellsfjöru og Fjallsárlón sem hafa verið hluti af vinsælustu ferðamannastöðum landsins undanfarin ár. Áætlunin er afrakstur viðamikils samráðs sem formlega hófst í janúar 2019 þegar samið var við þrjár rannsóknarstofnanir á Hornafirði, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði, Nýheima þekkingarsetur og Náttúrustofu Suðausturlands, varðandi vinnu og ráðgjöf við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar. Stjórnunar- og verndaráætlun er grunnur að stýringu verndarsvæða og eitt af meginverkfærum þjóðgarðsins til að standa skil á stefnu hans um verndun, upplifun og sköpun.

Þá var suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs stækkað í dag þegar hluti jarðarinnar Sandfells í Öræfum og þjóðlendan Hoffellslambatungur urðu hluti af þjóðgarðinum. Í stækkuninni má til dæmis finna náttúruvættið Háöldu sem friðlýst var árið 1975, og Sandfell, en þar hefst gönguleið á hæsta tind landsins, Hvannadalshnjúk. Stækkunin er mikilvæg fyrir atvinnustarfsemi á svæðinu, en innan þess er aðkomuleið að Fall- og Virkisjökli sem eru fjölsóttustu jökulsporðarnir í Öræfum.

Svæðisráð suðursvæðis ásamt starfsfólki Vatnajökulsþjóðgarðs og sérfræðingum Nýheima Þekkingarseturs og Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Hornafirði. Mynd: Jón Ágúst Guðjónsson.

Vatnajökulsþjóðgarður var samþykktur á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna árið 2019. Skráningin er viðurkenning á því að svæðið sé einstakt á heimsvísu vegna samspils elds og íss sem hefur leitt til stórbrotinnar náttúru. Guðmundur Ingi ráðherra afhjúpaði fyrsta UNESCO skjöldinn í þjóðgarðinum í dag. Skjöldurinn er staðsettur rétt austan við gestastofuna í Skaftafelli, umkringdur fjallafegurð Öræfanna. Fyrirhugað er að á hverju svæði þjóðgarðsins verði komið fyrir samsvarandi skjöldum.

Hrafnhildur Ævarsdóttir, aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar, tók á móti gestum í Skaftafelli og stýrði viðburðinum. Hrafnhildur sagði einnig frá þeirri góðu uppbyggingu sem á sér stað í Skaftafellli þessi misserin. Verið er að leggja lokahönd á fræðslutorg sem er staðsett framan við Skaftafellsstofu. Á torginu er lögð áhersla á góða upplýsingagjöf um svæðið ásamt því að fræða um hið einstaka samspil mannvistar og náttúru í Skaftafelli og áhrif loftlagsbreytinga á mannlíf og umhverfið. Einnig eru miklar framkvæmdir í gangi við nýtt fráveitukerfi, fjölgun rafmagnstengla og hólfa á tjaldsvæðinu, ný skemma er í byggingu og verið er að undirbúa byggingu nýs móttökuhúss á tjaldsvæðinu.

Steinunn Hödd Harðardóttir, þjóðgarðsvörður, ræddi um þann mikla áfanga sem náðst hefur með staðfestingu á stjórnunar- og verndaráætlun við Breiðamerkursand. Steinunn kom inn á mikilvægi stjórnunar- og verndaráætlunarinnar fyrir framtíðaruppbyggingu á Breiðamerkursandi, en Jökulsárlón var auk þess nýlega valið sem eitt af Vörðum, merkisstöðum Íslands. Vörður er heildstæð nálgun áfangastaðastjórnunar sem nýlega var ýtt úr vör af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Fyrstu áfangastaðirnir sem hefja ferli til að verða Vörður eru Jökulsárlón, Gullfoss, Geysir og Þingvallaþjóðgarður. Verkefninu fylgja stór verkefni, svo sem undirbúningur fyrir rafhleðslustöðvar á svæðinu, hönnun gönguleiða og innkomutorgs, og gerð þolmarkarannsóknar fyrir svæðið. Einnig fór hún yfir þau nýju svæði sem voru að koma inn í þjóðgarðinn, Sandfell og Hoffellslambatungur.

Hrafnhildur Ævarsdóttir, þjóðgarðsvörður í Skaftafelli fer yfir framkvæmdir og verkefni í Skaftafelli. Mynd: Jón Ágúst Guðjónsson.

Helga Árnadóttir, sérfræðingur, afhenti ráðherra minniskubb sem innihélt skjal með greinargerð stýrihóps um [framtíðarsýn fyrir Skaftafell-hér vantar hlekka], fyrsta þjóðgarð á Íslandi sem stofnaður var samkvæmt lögum um náttúruvernd, árið 1967. Greinargerðin er afrakstur viðamikils samráðs sem hófst á haustdögum 2020. Svæðisráð suðursvæðis og stjórn þjóðgarðsins tóku á fundum sínum í vor afstöðu til framlagðra valkosta stýrihópsins, á grunni gagna og rökræðu. Niðurstaðan er að fjölbreytt hlutverk Skaftafells samanstandi af eftirfarandi meginþáttum:

  • Að vera áhugaverður viðkomu- og dvalarstaður ólíkra hópa sem vilja kynna sér náttúru svæðisins í bland við slökun og samveru með vinum og vandamönnum.
  • Að taka vel á móti gestum í fallegri en látlausri gestastofu, mögulega í núverandi húsi með viðbótum, með veglegri sýningu sem fjallar um sérstöðu svæðisins og setur það í stærra samhengi loftslagsbreytinga.
  • Að gefa starfsfólki kost á heilsársbúsetu í fjölbreyttu húsnæði innan Skaftafells í bland við aðra búsetukosti á nærsvæðum.
  • Að gefa fyrirtækjum í ferðaþjónustu kost á aðstöðu fyrir sölu og undirbúning ferða á þjónustusvæðinu, ásamt aðstöðu fyrir starfsfólk.
  • Að stuðla að öryggi íbúa og gesta í Öræfum með því að bjóða aðstöðu fyrir viðbragðsaðila eins og björgunarsveitir, lögreglu og slökkvilið og fjöldahjálparstöð í neyð.

Öræfakórinn, sem samanstendur af áhugafólki um söng í Öræfum, flutti nokkur lög á meðan á athöfninni stóð, og vill þjóðgarðurinn þakka kærlega fyrir framlagið. Einnig eru Hótel Skaftafelli færðar kærar þakkir fyrir veitingar.

Vatnajökulsþjóðgarður þakkar fyrir góðan stuðning umhverfis- og auðlindaráðuneytis sem og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis við ofantalin verkefni og þá sérstaklega fjármögnun í gegnum Landsáætlun um uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum og í gegnum Vörður – Merkisstaðir Íslands.

Verkefnin framundan eru vegleg og metnaðarfull. Vatnajökulsþjóðgarður stefnir áfram að góðri uppbyggingu og starfsemi til heilla náttúru og samfélagi.